Arion banki hyggst efna til frumútboðs á hlutabréfum í bankanum auk þess sem ætlunin er að skrá hlutabréf í bankanum í kauphöll á Íslandi og í Svíþjóð.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka. Þar segir að stefnt sé að því að skráning hlutabréfa í bankanum hjá Nasdaq á Íslandi og skráning hlutabréfa í formi svokallaðra SDR (Swedish Depository Receipts) hjáNasdaq í Stokkhólmi muni fara fram á fyrri hluta ársins, það er þá á næstu vikum, að því gefnu að lagaskilyrði séu uppfyllt og markaðsaðstæður leyfi.
Ítarleg tilkynning um hlutafjárútboðið er birt á vef bankans. Þar er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, að stjórnendur hans séu sannfærðir um að nú sé rétti tíminn til að taka þetta skref í þróun fyrirtækisins.
„Arion banki hefur verið endurreistur að fullu á síðustu árum og er í dag sterkur, arðsamur og leiðandi banki á Íslandi,“ segir Höskuldur.
Arion banki verður fyrsti íslenski bankinn til að vera skráður á aðalmarkað Nasdaq frá hruninu 2008.
