„Það er útvarpsstjóri sem tekur ákvörðun um þetta og gerir það væntanlega í samráði við stjórn RÚV,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, aðspurð um ákvörðunarvald um mögulega sniðgöngu Íslands.
Skiptar skoðanir eru innan stjórnarinnar um hvort stjórnin hafi einhverja aðkomu að málinu.
Sjá einnig: Þúsundir vilja að Ísland sniðgangi Eurovision
Þeir stjórnarmenn sem blaðið ræddi við telja að ákvörðunin varði dagskrá RÚV og komi þannig ekki formlega á borð stjórnar, nema til staðfestingar á ákvörðun útvarpsstjóra. Aðrir viðmælendur telja málið tengt dagskrárvaldi, sem stjórnin komi ekki nálægt og útvarpsstjóra beri að taka ákvörðun að höfðu samráði við dagskrárstjóra. Öllum ber þó saman um að ákvörðunina eigi að taka innan RÚV og án afskipta ráðherra eða ríkisstjórnar.

„Þetta hefur verið rætt innan dagskrárstjórnar og að sjálfsögðu erum við að skoða málið,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps. Hann segir þó að ákvörðunar sé ekki að vænta á næstu dögum og líklega ekki fyrr en í haust, í aðdraganda þess frests sem stöðvarnar hafa til að tilkynna þátttöku.
Skarphéðinn segir að haft verði samráð við norrænu sjónvarpsstöðvarnar áður en ákvörðun verður tekin um þátttöku. Aðspurður segist hann ekki hafa heyrt af sambærilegri umræðu eða undirskriftasöfnunum í nágrannaríkjunum. Ekki náðist í útvarpsstjóra við vinnslu fréttarinnar.