Erlent

Björguðu flugmanni sem sogaðist út úr vélinni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tækjabúnaður vélarinnar skaddaðist mikið en aðstoðarflugmaðurinn slapp með skrámur.
Tækjabúnaður vélarinnar skaddaðist mikið en aðstoðarflugmaðurinn slapp með skrámur. Weibo
Flugvél á vegum kínverska flugfélagsins Sichuan Airlines þurfti að nauðlenda í gær eftir að aðstoðarflugmaður „sogaðist“ nánast allur út úr vélinni.

Haft er eftir flugmanni vélarinnar í þarlendum miðlum að rúða flugstjórnarklefans hafi brotnað þegar vélin var í 32 þúsund feta hæð. Flugmaðurinn Liu Chuanjian, sem hrósað hefur verið fyrir mikla hetjudáð, segir að skömmu áður en rúðan gaf sig hafi heyrst ærandi hljóð í flugstjórnarklefanum.

Loftþrýstingur og hitastig klefans hafi lækkað hratt og áður en hann vissi af var rúðan á bak og burt.

„Það voru engin varúðarmerki. Rúðan brotnaði allt í einu með háum hvelli. Áður en ég veit af er aðstoðarflugmaðurinn kominn hálfur út úr vélinni,“ segir Liu.

„Allt í flugstjórnarklefanum var í lausu lofti. Nánast allur búnaðurinn lét ekki að stjórn, ég heyrði ekki í talstöðinni. Vélin hristist svo mikið að ég gat ekki einu sinni lesið á mælana.“

Áhafnarmeðlimum tókst að draga aðstoðarflugmanninn, sem sagður er hafa verið í sætisbelti, aftur inn í vélina. Hann slapp með minniháttarmeiðsl, rétt eins og flugþjónn sem aðstoðaði við björgunina. Yfirflugmanninum tókst að lenda vélinni stórslysalaust og allir 119 farþegarnir sluppu ómeiddir.

Málið er nú til rannsóknar af kínverskum flugstjórnaryfirvöldum. Þó svo að það þekkist að fugla eða eldingar hafi eyðilagt rúður í flugstjórnarklefum telst það sjaldgæft að rúðurnar losni af í heilu lagi eins og gerðist í þessu tilfelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×