Matvælastofnun hefur tekið hvolp úr vörslu eiganda á höfuðborgarsvæðinu vegna ofbeldis sem eigandinn beitti hvolpinn. Þá sýndi eigandinn auk þess sinnuleysi við umönnun hans, að því er fram kemur í frétt á vef Matvælastofnunar.
Hvolpurinn var tekinn af eigandanum eftir að Matvælastofnun bárust ábendingar um illa meðferð á honum. Eftir skoðun á málsatvikum var það mat stofnunarinnar að málið þyldi ekki bið og var því tafarlaust gripið til vörslusviptingar.
Í frétt Matvælastofnunar segir að nú sé unnið að því að finna hvolpinum nýtt heimili. Þá má einnig nálgast lög um velferð dýra á vef stofnunarinnar.

