Skoðun

Söngvakeppir

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Þegar til stóð að senda mig í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir nokkrum árum strandaði það á því lítilræði að ekki fannst mátulegur kjóll. Það var samdóma álit þeirra sem að komu, að ég væri nógu feitur; með sannkallaða söngvakeppi. Að lagleysi mitt væri hreint afbragð, að sjónleysið á hægra auganu og öll sú sjúkrasaga myndi hala inn mörg stig, hættan á að ég dytti í það og forklúðraði þátttöku landsins væri spennandi, og tannsteinninn sem myndi sjást svo vel í nærmynd gæti bent til banvæns sjúkdóms í vélinda. Sjálfur átti ég heimasmíðuð sólgleraugu sem ég ætlaði að vera með, og dagsdaglega hef ég hring á hverjum fingri svo ekki var það vandamál. Lagið var tilbúið: Blanda af Belgía ´73, Danmörk ´67 og Ísrael ´89 – með millikafla úr Söknuði eftir Jóa Helga. Textinn: Lög um vexti og verðtryggingu 38/2001 – sunginn á 15 tungumálum. Fólk er alltaf svag fyrir því sem er framandi.

En ég fór aldrei. Það gerði kjóllinn. Eða, mér var sagt það. Ég held að það hafi verið fyrirsláttur – hér hafi verið á ferðinni bévítans klíka. Fólk vildi halda forkeppni. Mér fannst það óþarfi, enda hafði Heimir Hallgríms þá þegar valið mig – þrátt fyrir tannsteininn. Hann velur jú alltaf rétt. Segja strákarnir.

Ég man ekki hver fór þetta árið – í staðinn fyrir mig, eða svo gott sem. En þau fóru með annað lag – og ömurlegan texta. Það var reynt að búa til einhverja stemmingu áður en þau fóru út. Það var allt misheppnað – fólk vissi líka í hjarta sínu að ég var sá rétti, en þorði auðvitað ekkert að nefna það. Hér er svoddan þöggun – og fordómar.

En, eftir á að hyggja: Hvar hefði svo sem átt að halda keppnina árið eftir?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×