Erlent

Situr í fangelsi fyrir samkynhneigð en verður næsti forsætisráðherra Malasíu

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Anwar Ibrahim á sér langa og dramatíska sögu í malasískum stjórnmálum
Anwar Ibrahim á sér langa og dramatíska sögu í malasískum stjórnmálum Vísir/EPA
Anwar Ibrahim, fyrrverandi vonarstjarna malasískra stjórnmála, er aftur líklegur framtíðarleiðtogi landsins eftir að fréttir bárust af því að hann verði náðaður á næstunni. Hann situr í fangelsi fyrir samkynhneigð en gæti orðið forsætisráðherra innan tveggja ára.

Anwar var lærisveinn Mahathirs Mohamad, sem var forsætisráðherra Malasíu í rúma tvo áratugi, frá 1981 til 2003. Anwar gegndi meðal annars stöðu aðstoðarforsætisráðherra og fjármálaráðherra á þeim tíma. Þeim félögum sinnaðist hins vegar árið 1999 og var Anwar settur í fangelsi fyrir samkynhneigð og aðrar sakir sem hann sagði upplognar.

Á meðan hann sat í fangelsi sögðust sjónarvottar stundum sjá svarta limmósínu fyrir utan fangelsið. Anwar sást ganga út úr fangelsinu og setjast inn í bílinn þar sem hann dvaldi langtímum saman. Næsta víst þykir að þetta hafi verið bíll Mahathirs forsætiráðherra og hann hafi þarna átt í einhverskonar sáttaviðræðum við sinn fyrrverandi lærisvein.

Anwar var látinn laus árið 2004 og lét aftur til sín taka í stjórnmálum, nú sem stjórnarandstæðingur. Það mældist afar illa fyrir meðal ráðamanna í Malasíu. Anwar var í kjölfarið aftur handtekinn fyrir meinta samkynhneigð og dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2015.

Nú ber svo við að Mahathir er aftur kominn til valda, 92 ára gamall, sem forsætisráðherra Malasíu eftir nýafstaðnar kosningar. Það þykja töluverð tíðindi í Malasíu að Mahathir hafi fyrirgefið Anwar eftir öll þessi ár og muni sjá til þess að konungur landsins náði hann. Enn fremur segist Mahathir stefna að því að Anwar taki við af sér innan tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×