Skoðun

Frelsisstefnan á áttavitanum

Katrín Atladóttir skrifar
Enginn getur sest niður og skýrt frá öllu hann hyggst gera í nýju starfi næstu fjögur árin. Því er mikilvægt að í starfsviðtali komi fram fyrir hvað viðkomandi stendur og fyrir hvað hann brennur.

Að sama skapi er nauðsynlegt að kjósendur viti fyrir hvað frambjóðendur standa, svo þeir geti borið traust til ákvarðana þeirra þegar á hólminn kemur. Að frambjóðendur hafi lífsviðhorf sem þeir munu alltaf leita í til að lýsa sér veginn við ákvarðanir, jafnt stórar sem smáar.

Ég brenn fyrir frelsi. Frelsi til að allir njóti jafnra tækifæra. Mannréttindum og jafnræði. Að borgarbúar fái notið sín og borgin veiti þeim rými til að finna frumkvæði og framkvæmdaþrótti farveg. Jafnt í sínum störfum og frítíma.

Að ungt fólk hafi frelsi til að mennta sig, óháð aðstæðum. Að allir foreldrar hafi frelsi til að taka jafnan þátt á vinnumarkaði og hafi jafnan aðgang að dagvistun. Án þess að lenda í vandræðum með að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Grundvöllur jafnréttis er fjárhagslegt sjálfstæði. Því er ógnað þegar annað foreldri þarf að minnka þátttöku á vinnumarkaði.

Að grípa samborgara okkar ef eitthvað bjátar á og veita þeim hjálp við að verða aftur virkir þátttakendur í samfélaginu. Að veita borgarbúum frelsi til að velja samgöngukosti sem henta þeim og blanda þeim saman að vild.

Að skipuleggja borgina þannig að allir íbúar hennar finni sér búsetukosti við hæfi, hvort sem það er út frá staðsetningu, stærð eða öðrum háttum.

Við erum nefnilega öll ólík, höfum ólíkan smekk og ólíkar þarfir.

Að setja ekki of miklar skorður á íbúa og fyrirtæki, að setja ekki reglur um að allt sé bannað nema það sé sérstaklega leyft. Að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar og leggja ekki óhóflegar álögur á borgarbúa. Að berjast fyrir atvinnufrelsi og frelsi einstaklingsins, afnámi hafta, samvinnu og framfaramálum.

Ég er í Sjálfstæðisflokknum vegna þess að þau lífsviðhorf frelsis og ábyrgðar eru líka grundvöllur sjálfstæðisstefnunnar. Og ég er í framboði til borgarstjórnar vegna þess að þau eiga sérstakt erindi í Reykjavík, það er kominn tími á breytingar í borginni okkar.

Höfundur skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×