Skoðun

1.100 milljarðar skipta máli

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Eftir þrjár vikur verður ákveðið hvar heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2026 verður haldið. Þetta er fyrsta kosningin eftir að upp komst um umfangsmikla spillingu innan alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA og stendur valið á milli Marokkó og sameiginlegrar umsóknar Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó.

Fulltrúar allra aðildarsambanda fá í fyrsta sinn að kjósa og hafði FIFA áður lagt mat á umsóknir samkvæmt skýrt skilgreindum matsþáttum. Sem dæmi má nefna að 6% niðurstöðunnar byggðu á mati á aðstöðu fyrir leikmenn og dómara og 3% á gæðum fyrirhugaðra stuðningsmannasvæða. Væntanlegur hagnaður FIFA af mótinu vó 30 prósent af heildarmatinu.

Hugmyndin er að gera valið faglegra og eftir því hefur svo sannarlega verið kallað. Bandarísk yfirvöld áætla að umfang mútugreiðslna hjá FIFA undanfarin ár nemi um 15 milljörðum króna og valið á Katar og Rússlandi sem gestgjöfum HM hefur verið harðlega gagnrýnt.

Nú reynir því á knattspyrnuhreyfinguna. Alls 211 aðildarsambönd kjósa 13. júní og talið er að mjótt verði á mununum. Bandarísk knattspyrnuyfirvöld tefldu fram afar sterku trompi á dögunum. Því var lofað að færi HM vestur um haf yrði hagnaður FIFA af mótinu um 1.100 milljarðar króna, svipað samanlögðum hagnaði sambandsins af HM 2006, 2010, 2014 og 2018. Aftur á móti er knattspyrnusamband Afríku stærst aðildarsambanda FIFA og reiknað er með að öll aðildarlöndin 53 styðji Marokkó.

Það hefur kannski verið skipt um mann í brúnni en hagsmunir ráða enn hvernig aðildarsamböndin haga atkvæðum sínum. Það er ólíklegt að gæði stuðningsmannasvæða hafi áhrif, en 1.100 milljarðarnir hafa þó mikil áhrif á forsvarsmenn FIFA, sem í liðinni viku fengu neikvæð viðbrögð frá knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, varðandi tvö ný mót sem skila áttu sambandinu um 2.500 milljörðum króna í kassann.

Þó FIFA sé rekið án hagnaðarsjónarmiða höfum við fyrir löngu áttað okkur á mikilvægi peninga í starfsemi þess. Þessir 1.100 milljarðar koma svo sannarlega til með að skipta máli.

Höfundur er fræðslustjóri Íslandsbanka




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×