Forstjórar bæði Eimskips og Samskipa með réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar á samkeppnislagabrotum sem hófst fyrir fimm árum. Upplýsingafulltrúi Eimskips segir að forstjóri félagsins hafi óskað eftir gögnum um í hverju ætluð samkeppnislagabrot felist en engar upplýsingar fengið.
Þeir Gylfi Sigfússon forstjóri Eimskips, Bragi Þór Marinósson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips, Pálmar Óli Magnússon forstjóri Samskipa á Íslandi og Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskip Logistics hafa réttarstöðu sakbornings hjá embætti héraðssaksóknara vegna rannsóknar á ætluðum samkeppnislagabrotum skipafélaganna tveggja. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu í dag.
Rannsókn þessa máls er komin til ára sinna en Samkeppniseftirlitið framkvæmdi húsleitir hjá skipafélögunum vegna hennar fyrir tæpum fimm árum eða hinn 10. september 2013. Ætluð brot beinast gegn 10. grein samkeppnislaga sem fjallar um ólögmætt samráð og 11. grein sömu laga sem fjallar um misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Samkeppniseftirlitið kærði brotin til héraðssaksóknara að lokinni rannsókn.
Í tilkynningu Eimskips til Kauphallar Íslands í gærkvöldi segir: „Þann 11. maí sl., fóru forstjóri og framkvæmdastjóri alþjóðasviðs félagsins til skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara og fengu báðir stöðu sakbornings þann sama dag.“ Eimskip hafnar því að hafa gerst brotlegt við samkeppnislög en í tilkynningunni segir jafnframt: „Miðað við þær takmörkuðu upplýsingar sem félaginu eru kunnar um sakarefni málsins, hafnar félagið sem fyrr ásökunum um að hafa gerst brotlegt gegn ákvæðum samkeppnislaga.“
Ekki liggur fyrir hvers vegna rannsóknin hefur tekið svona langan tíma eða hvers vegna mennirnir voru fyrst boðaðir í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara í maí síðastliðnum.
Í hverju felast ætluð brot? „Við höfum ekki upplýsingar um það og allt sem snýr að málinu hefur þegar komið fram í tilkynningu okkar,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips.
Var Gylfi Sigfússon ekki upplýstur um það þegar hann mætti í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara í hverju ætluð samkeppnislagabrot fælust? „Eins og fram kemur í tilkynningunni þá hefur hann óskað eftir gögnum um málið og honum hafa ekki enn borist þau gögn. Þannig að hann er engu nær,“ segir Ólafur.
Stjórnendur Eimskips og Samskipa eru með réttarstöðu sakbornings í málinu eins og áður greinir. Þess ber að geta að í 28. gr. laga um meðferð sakamála kemur fram að lögreglu beri að upplýsa sakborning um sakarefnið áður en skýrsla er tekin af honum en í ákvæðinu segir: „Sakborningur á rétt á að fá upplýsingar um sakarefni áður en skýrsla er tekin af honum út af því eða við handtöku ef til hennar kemur.“