Bæjarstjóri Fjallabyggðar segir að íbúum sveitarfélagsins gæti fjölgað um allt að tíu prósent á næstu árum meðal annars út af aukinni fjárfestingu í ferðaþjónustu.
Rúmlega tvö þúsund manns búa í Fjallabyggð sem varð til með sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar fyrir tólf árum. Á Siglufirði hafa menn verið að horfa til ferðaþjónustunnar til að auka atvinnutækifæri á svæðinu.
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri segir að vel hafi gengið að fá ferðamenn á svæðið.
„Við höfum verið með þessa segla hér. Með tvö mjög góð hótel. Góða afþreyingu og menn eru að byggja hér nýjan golfvöll. Við erum að setja nýjan veg upp á skíðasvæðið og gera nýjan skíðaskála og reyna að draga ferðamennina inn,“ segir Gunnar.
Hann bindur miklar vonir þær fjárfestingar sem nú eru fyrirhugaðar á svæðinu.
„Ef að þau tækifæri sem eru í vinnslu núna munu ganga eftir þá gæti fjölgað hér um hundrað til tvö hundruð manns á næstu fimm árum og við erum að vona að það gangi eftir,“ segir Gunnar.
