Innlent

Leita manns í Ölfusá

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björgunarsveitarmenn við leit á bökkum Ölfusár á níunda tímanum í morgun.
Björgunarsveitarmenn við leit á bökkum Ölfusár á níunda tímanum í morgun. Vísir/MHH
Leit stendur yfir að manni sem talinn er hafa farið fram af brúnni yfir Ölfusá í nótt.

Lögreglu barst tilkynning laust eftir klukkan 3 um að maðurinn hefði farið í ána. Ræstar voru út björgunarsveitir á Suðurlandi og af höfuðborgarsvæðinu, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar, og eru hópar þessir enn við leit á svæðinu.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu á níunda tímanum að viðbótarleitarlið frá höfuðborgarsvæðinu hafi verið kallað út og sé á leið á vettvang. Þá stækki leitarsvæðið eftir því sem tímanum líður.

Samkvæmt upplýsingum frá Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, eru um 70 björgunarsveitarmenn nú við leit. Laust fyrir klukkan 9 í morgun var verið að skipta út hópum sem hófu leit í nótt og nýir hópar að taka við. Þá er búist við því að stækki í leitarhópnum þegar líður á morguninn.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna leitarinnar eins og áður hefur komið fram en hún fór í loftið um klukkan 4, að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar. Þyrlan lenti aftur í Reykjavík um klukkan 6:30 og ekki stendur til að hún verði send af stað til frekari leitar.

 

Leit beinist nú einkum að svæðinu fyrir neðan flugvallarsvæðið og Ölfusárósa.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Björgunarsveitir á Suðurlandi og af höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar til leitar í nótt. Myndin er frá leit við Ölfusá í morgun.Vísir/MHH
Maðurinn er talinn hafa farið fram af brúnni yfir Ölfusá í nótt.Vísir/MHH
Aðstæður eru erfiðar við leitina vegna vatnavaxta í ánni og hvassviðris.Vísir/MHH
Frá stjórn leitarinnar í Björgunarfélagi Árborgar í morgun.Vísir/MHH



Fleiri fréttir

Sjá meira


×