Innlent

Segja innbrotsþjófana fundna

Samúel Karl Ólason skrifar
Óli segist þakka fyrir að um fyrirtæki sé að ræða en ekki heimili, þó málið sé ömurlegt.
Óli segist þakka fyrir að um fyrirtæki sé að ræða en ekki heimili, þó málið sé ömurlegt. Vísir/Vilhelm
Búið er að handtaka þá sem brutust inn í Gullsmiðju Óla í Hamraborg í Kópavogi aðfaranótt miðvikudags. Þetta segir Hanna Rún Bazev Óladóttir, dóttir Óla Jóhanns Daníelssonar gullsmiðs, á Snapchat þar sem hún segir að málið hafi verið upplýst. Óli segir í samtali við Vísi að hann hafi heyrt að þjófarnir hafi fundist en lögreglan hefur ekki haft samband við hann.

Það var rétt rúmlega fjögur í fyrri nótt sem Óli Jóhann fékk símtal frá Securitas þar sem honum var tilkynnt um innbrotið. Þegar hann mætti á vettvang skömmu síðar mættu honum brotnar rúður, skápar, turnar og afgreiðsluborð.

Sjá einnig: Glerbrot og blóð út um allt: „Ömurleg aðkoma“



Innbrotsþjófarnir munu hafa verið tveir karlar og ein kona, öll íslensk, og mun lögreglan hafa sleppt þeim aftur. „Ætli þau séu ekki bara í bíó,“ segir Óli.

Á Snapchat segir Hanna Rún það mikinn létti að vita til þess að innbrotsþjófarnir hafi verið fundnir. Þá þakkar hún, fyrir hönd foreldra sinna, öllum þeim sem sendu fallegar kveðjur og buðu fram hjálp sína eftir innbrotið.

Sævar Örn, tengdasonur Óla Jóhanns, birti í dag myndband á Facebook-síðu sinni sem sýnir meinta innbrotsþjófa mæta á vettvang klukkan 4:04 aðfaranótt miðvikudags. Athygli vakti að Sævar hvetur fólk ekki til að hafa samband við lögreglu heldur við sig. Og hvetur fólk til að koma hreinlega með fólkið til sín.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×