Innlent

Viðhorfsbreyting karla til ófrjósemisaðgerða

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ekki eru til upplýsingar um hversu margir fatlaðir hafa farið í slíkar aðgerðir.
Ekki eru til upplýsingar um hversu margir fatlaðir hafa farið í slíkar aðgerðir. Vísir/Getty Images
Heildarfjöldi ófrjósemisaðgerða ársins 2017 sem framkvæmdar voru hér á landi voru 638 talsins sem er örlítið meiri en árið áður en árið 2016 voru 625 ófrjósemisaðgerðir framkvæmdar á Íslandi. Karlar voru í miklum meirihluta. Þetta kemur fram í Fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.

Ef litið er til þróunar frá árinu 2000 má sjá að mikill viðsnúningur hefur orðið á tíðni ófrjósemisaðgerða eftir kyni. Þróun áratuganna tveggja gefur til kynna að ófrjósemisaðgerðum á körlum fjölgar jafnt og þétt til ársins 2013 en síðan þá hefur heildarfjöldi aðgerða haldist nokkuð stöðugur. Árið 2017 voru 542 aðgerðir framkvæmdar á körlum en 96 á konum.

Í samantektinni kemur einnig fram að ófrjósemisaðgerðirnar voru algengastar hjá fólki á aldrinum 35 – 44 ára sem á jafnt við um karla og konur. Þá var einnig mikill munur á því hvar aðgerðirnar voru framkvæmdar eftir kyni. Flestar ófrjósemisaðgerðir sem framkvæmdar voru á karlmönnum voru á stofum sjálfstætt starfandi þvagfæraskurðlækna eða 92,3% árið 2017. Aðeins 7,7% ófrjósemisaðgerða á körlum voru gerðar á heilbrigðisstofnunum.

Þessu er þveröfugt farið meðal kvenna sem leituðu flestar til heilbrigðisstofnana, eða 88% þeirra á meðan 12% aðgerðanna á konum voru framkvæmdar á stofum sjálfstætt starfandi sérfræðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×