Innlent

Tilraunaverkefni á innleiðingu núvitundar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Nú stendur yfir tilraunaverkefni í sex skólum landsins á innleiðingu núvitundar. Upphafsmaður aðferðafræðinnar heldur erindi í Hörpu út vikuna.

Í lýðheilsustefnu Íslendinga sem samþykkt var árið 2016 var gert ráð fyrir innleiðingu núvitundar í grunnskólum. Landlæknisembættið hefur að breskri fyrirmynd hafið markvissa innleiðingu hugmyndafræðinnar í sex grunnskólum landsins.

„Við erum að skoða sex skóla og meta hvort árangurinn verði sá sami á Íslandi og í Bretlandi. Rannsóknir sýna að aukning er á kvíðaeinkennum og við lítum svo á að þetta geti dregið úr vanlíðan og aukið vellíðan meðal barna á öllum skólastigum,“ segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis.

Markmiðið með núvitundarþjálfuninni er að kenna börnum að einbeita sér að augnablikinu, ásamt því að gefa þeim verkfæri til að takast á við mótlæti í lífinu.

John Kabat-Zinn lagði fyrstur manna grunn að iðkun núvitundar í læknisfræði og sálfræði. Þá segir hann hugmyndafræði núvitundar snúast um meðvitund. Zinn telur ástæðu þess að börn eigi erfitt með að einbeita sér í kennslustundum sé að hvert og eitt barn burðist með vanlíðan sem tengist áhyggjum næsta augnabliks.

„Núvitund líkist því að stilla hljóðfæri athyglinnar. Við þurfum að kenna börnum að halda athyglinni,“ segir Zinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×