Viðskipti innlent

HB Grandi hagnaðist um 405 milljónir á fyrsta ársfjórðungi

Samúel Karl Ólason skrifar
HB Grandi er eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins.
HB Grandi er eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins. Vísir/HANNA
Útgerðarfyrirtækið HB Grandi Hf. hagnaðist um 3,3 milljarða evra á fyrsta fjórðungi ársins. Það samsvarar um 405,5 milljónum króna. Rekstrartekjur fyrirtækisins á tímabilinu námu 6,2 milljarðar króna samanborið við 5,2 milljarða á sama tímabili í fyrra. Heildareignir HB Granda í lok mars voru 61,6 milljarðar króna og heildarskuldir 30,1 milljarður. Eigið fé var 31,5 milljarðar. EBITDA var einn milljarður króna.

Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri HB Granda sem hefur verið birt á vef fyrirtækisins.



Þar kemur fram að fyrirtækið hafi einungis fryst 1.265 tonn af loðnuhrognum á tímabilinu en þau voru 3.736 á sama tímabili í fyrra. Á ársfjórðungnum veiddu skip útgerðarinnar 11,1 þúsund tonn af botnfiski og 39 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Opinn kynningarfundur um afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi verður haldinn fimmtudaginn 31. maí klukkan 8:30 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1. Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri mun kynna uppgjörið og svara spurningum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×