Erlent

Málgagn Kim í hart við CNN og Fox News

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kim Yong-chol hershöfðingi kom til Bandaríkjanna í gær.
Kim Yong-chol hershöfðingi kom til Bandaríkjanna í gær. Vísir/getty
Bandaríkjamenn áttuðu sig á að ekki væri hægt að reiða sig á hernaðarmátt og þvingunaraðgerðir til þess að ná fram kjarnorkuafvopnun í Norður-Kóreu. Þetta skrifar Ri Hak Nam í leiðara norðurkóreska ríkisdagblaðsins Rodong Sinmun. Blaðið er málgagn einræðisstjórnar Kim Jong-un. Sagði Ri það rangt, eins og Bandaríkjaforseti hefur haldið fram, að Norður-Kórea hafi beðið um leiðtogafundinn sem til stóð að fram færi í Singapúr þann 12. júní. Bandaríkjamenn hafi sjálfir beðið um hann.

Ri gagnrýndi bandarísku miðlana Fox News, CBS og CNN fyrir að fá til sín bandaríska embættismenn sem héldu því fram að Bandaríkin myndu veita Norður-Kóreu þróunaraðstoð ef ríkið sýndi fram á kjarnorkuafvopnun. „Þetta er kjaftæði frá þessum vanhæfu fjölmiðlum á spena valdhafans.“

„Alþjóðasamfélagið veit að þær miklu breytingar í samskiptum ríkjanna voru Norður-Kóreu að þakka. Við höfum aldrei búist við þróunaraðstoð á móti. Bandarískir miðlar ættu að hætta að bulla,“ hélt Ri fram.

Þrátt fyrir deilutón í leiðara málgagnsins halda Bandaríkjamenn og Norður-Kóreumenn áfram að vinna að því að koma á leiðtogafundinum í Singapúr sem Trump aflýsti. Suðurkóreski miðillinn Chosun Ilbo greindi frá að sendinefndir ríkjanna hefðu hist í landamærabænum Panmunjom um helgina. Enn væri langt í land.

„Bandaríkin eru á því að ekki sé hægt að tryggja öryggi einræðisstjórnarinnar eða létta á þvingunum fyrr en algerri kjarnorkuafvopnun hefur verið náð fram,“ sagði í frétt Chosun Ilbo.

Kyodo News greindi hins vegar frá því að yfirvöld í Pjongjang væru ekki tilbúin að senda tuttugu kjarnorkusprengjur úr landi til að sýna að ríkið sé tilbúið að afvopnast varanlega, líkt og miðillinn segir Bandaríkin fara fram á.

Ljóst er að nokkur vilji er fyrir því að viðræðurnar fari fram. Kim sendi einn helsta ráðgjafa sinn, hershöfðingjann Kim Yong-chol, til Bandaríkjanna til viðræðna við Bandaríkjastjórn. Trump sagði á Twitter að hann hefði sett saman „stórkostlegt lið“ til að ræða við Norður-Kóreu. Heimsókn hershöfðingjans bæri þess merki að Norður-Kórea væri að bregðast rétt við bréfinu sem Trump sendi fyrir helgi þar sem hann tilkynnti Kim að viðræðunum væri aflýst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×