Skoðun

Fótboltaveislan

Óttar Guðmundsson skrifar
Á árunum fyrir hrun voru íslenskir bankamenn þjóðhetjur enda afburðasnjallir í meðferð peninga og fjárfestingum. Um tíma voru frægastu vöruhús og hótel Dana í eigu íslenskra athafnamanna. Bankarnir opnuðu fjölmörg útibú erlendis og lögðu undir sig fjármálaheiminn. Ráðamenn þjóðarinnar mærðu mjög hina talnaglöggu bankamenn. Forsetinn sagði að þeir hefðu alist upp við Hávamál og sagnaarf sem skýrði snarræði þeirra og æðruleysi. Þeir voru með réttu kallaðir útrásarvíkingar til að tengja þá inn í heim Íslendingasagna. Íslendingar fóru ekki lengur í víking vopnaðir sverði og spjóti heldur Apple-tölvu og excelskjölum. Síðan hrundi allt eins og fyrir galdur og bæði þjóð og misskildir snillingar sátu eftir með sárt ennið.

Nú er kominn nýr dagur og enn skal haldið í víking. Í þetta sinn standa ekki jakkafataklæddir bankamenn í stafni heldur fótboltamenn í stuttbuxum og bláhvítri treyju. Ísland tekur í fyrsta sinn þátt í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins. Nú er tími til kominn að hefna ófaranna í hruninu og segja heiminum að Íslendingar hafi náð vopnum sínum á nýjan leik. Landslið Argentínu, Nígeríu og Króatíu verða lítið mál fyrir víkingana úr norðri. Síðan þarf að vinna milliriðlana og koma sér í sjálfan úrslitaleikinn.

Sigur í heimsmeistarakeppninni mundi hleypa miklu lífi í túrismann. Þjóðinni gengi betur að selja fisk og hvalaafurðir útum allan heim og íslenskt hugvit yrði aftur eftirsótt. Það gæti rutt brautina fyrir nýja útrás íslensku bankanna með stórkostlegum fjárfestingum og miklum sigrum á fjármálasviðinu. Íslenskir bankamenn fengju uppreisn æru. Heimsyfirráð eru í sjónmáli ef íslenska landsliðinu tekst að standa í lappirnar í 6 knattspyrnuleikjum eða 540 mínútur. Það ætti ekki að vera mikið mál fyrir unga víkinga sem drukku í sig Hávamál með móðurmjólkinni.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×