Fótbolti

Áhugi Mourinho kemur brasilíska landsliðsþjálfaranum ekki á óvart

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fred í leik með brasilíska landsliðinu.
Fred í leik með brasilíska landsliðinu. Vísir/Getty
Enskir fjölmiðlar sögðu frá því í gærkvöldi að brasilíski miðjumaðurinn Fred verði væntanlega orðinn leikmaður Manchester United áður en þessi vika er á enda.

Sky Sports hefur heimildir fyrir því að læknisskoðunin sé í Manchester í dag en Fred er einmitt staddur í þeim hluta Englands þessa dagana. Manchester United vill ganga frá þessum kaupum sem fyrst en leikmaðurinn hefur verið orðaður við félagið í langan tíma.

Tite, þjálfari brasilíska landsliðsins, er með Fred í HM-hópnum sínum og miðjumaðurinn kom inná sem varamaður í 2-0 sigri á Króötum á Anfield í Liverpool í gær.

Tite var spurður út í fréttirnar af Fred og Manchester United og þjálfarinn talaði um mikilvægi þess að United mynd ganga sem fyrst frá þessu svo leikmaðurinn gæti farið að einbeita sér að HM í Rússlandi.





 „Þegar þetta klárast og það er óhjákvæmilegt að það geri það, þá er ráðleggjum við honum að ganga frá þessu sem fyrst svo að hann geti einbeitt sér að fullu að landsliðinu,“ sagði Tite.

Fred er 25 ára gamall og leikmaður úkraínska félagsins Shakhtar Donetsk. Hann hefur spilað meira en 150 leiki fyrir félagið frá 2013.

Tite skilur vel áhuga Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United, á brasilíska landsliðsmanninum.

„Ef ég væri knattspyrnustjóri þá myndi ég líka reyna að ná í hann,“ sagði Tite.

Fred hefur spilað átta landsleiki fyrir Brasilíu en Tite kallaði aftur á hann í ár eftir þriggja ára fjarveru frá landsliðinu. Fred féll á lyfjaprófi í Suðurameríkukeppnknni 2015 og mátti ekki spila aftur með landsliðinu fyrr en í júlí 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×