Skoðun

Ölmusa útgerðarinnar

Bolli Héðinsson skrifar
Það var engin tilviljun sem réði því að ríkisstjórnin afréð að koma ekki með frumvarpið um lækkun veiðigjalda fyrr en eftir byggðakosningarnar. Ríkisstjórnin veit að hún á óuppgerð mál við kjósendur. Reyndar telja Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sig ekki eiga neitt óuppgert við kjósendur þegar kemur að veiðigjöldunum, lág veiðigjöld á núverandi formi er þeirra meðvitaða stefna og vilja þeir helst engu breyta frá núverandi fyrirkomulagi. Vinstri græn töluðu aftur á móti fjálglega fyrir kosningar fyrir hækkun veiðigjalda. Efndirnar eru lækkun gjaldanna.

Skattaspor heimilanna

Hugtakið „skattaspor“ er óspart notað af útgerðinni og málsvörum hennar og á að vera einhvers konar réttlæting á því að útgerðinni er ekki gert að greiða sams konar veiðigjald til þjóðarinnar og hún greiðir fyrir öll önnur aðföng þ.m.t. olíu til olíufélaganna og veiðarfæri til veiðarfærasalanna. Þjóðin á aftur á móti að þurfa að sætta sig við að notkunargjald fiskimiðanna sé ákvarðað á Alþingi.

Þegar útgerðin og málsvarar útgerðanna tala um „skattaspor“ þá eru talin upp þau opinberu gjöld sem útgerðirnar greiða sem er að mestu leyti skattar og gjöld sem öll fyrirtæki á Íslandi greiða hvort sem er, útgerðir sem og önnur fyrirtæki.

En „skattaspor“ má skoða með ýmsu móti. Þannig má til sanns vegar færa að „skatta­spor“ hjóna með tvö börn á skólaaldri sé hlutfallslega stærra heldur en „skattaspor“ sjávar­útvegsins. Hjónin þurfa að greiða beina skatta af launum sínum auk óbeinna skatta af öllum keyptum vörum til heimilisins til að fæða og klæða börn sín og sig sjálf. Hlutfallslegur kostnaður þeirra af opinberum gjöldum er síst minni heldur en sá kostnaður sem sjávarútvegurinn greiðir hinu opinbera.

Vegna umfangs sjávarútvegsins nema greiðslur útgerðarinnar háum fjárhæðum. Málsvarar útgerðanna sjá svo um að tíunda þetta reglulega eins og að hér sé um einhvers konar ölmusu að ræða sem sjávarútvegurinn af góðsemi einni saman greiðir í ríkissjóð en ekki greiðsla sem þeim ber að inna af hendi nákvæmlega eins og hjónum með tvö börn er gert að gera.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×