Fótbolti

Einkunnir Íslands: Rúrik maður leiksins

Rúrik í leiknum í kvöld.
Rúrik í leiknum í kvöld. Vísir/Andri Marinó
Rúrik Gíslason var maður leiksins að mati Vísis þegar Ísland tapaði í kvöld fyrir Noregi á Laugardalsvelli í næstsíðasta leik sínum fyrir HM.

Rúrik fékk tækifærið í byrjunarliðinu í kvöld og var greinilega ákveðinn í að sýna að hann ætti skilið að fá mínútur í Rússlandi en hann var ekki í EM-hópi Íslands fyrir tveimur árum síðan.

Íslenska liðið lék heilt yfir ekki vel í kvöld en hér fyrir neðan má sjá einkunnir okkar manna.

Einkunnagjöf Íslands fyrir Ísland - Noregur

Byrjunarlið:

Frederik Schram, markvörður 3

Mátti mögulega gera betur í fyrra marki Norðmanna þó það hafi verið ágætlega skotið. Gerði skelfileg mistök og gaf Norðmönnum annað markið. Ófyrirgefanlegt á stóra sviðinu. Martraðaleikur fyrir Frederik.

Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður 5

Lenti stundum í vandræðum með sinn mann og var eins og aðrir varnarmenn Íslands stundum úr stöðu. En harður af sér og gerði margt ágætlega.

Kári Árnason, miðvörður 6

Besti varnarmaðurinn í annars slakri íslenskri vörn í dag. Eins og oft áður ótrúlega drjúgur í að skalla fyrirgjafir úr teignum. Átti sendinguna á Frederik í öðru marki Norðmanna sem gerði markverðinum enga greiða.

Ragnar Sigurðsson, miðvörður 5

Leit ekki vel út í marki Norðmanna í fyrri hálfleik. Gerði samt sitt eftir það og við það skánaði varnarleikur Íslands.

Hörður Björgvin Magnússon, vinstri bakvörður 5

Gerði fá mistök í sókninni en það var lítill kraftur í honum þegar hann var beðinn um að sækja.

Jóhann Berg Guðmundsson, hægri kantmaður 6

Mikil gæði í þessum dreng og þegar hann náði að sýna þau var hann frábær. Dró af honum eftir því sem leið á leikinn.

Emil Hallfreðsson, miðjumaður 7

Stóð vaktina ágætlega í mikilvægu hlutverki á miðjunni. Fékk fáein skotfæri sem hann nýtti illa.

Birkir Bjarnason, miðjumaður 7

Orkumikill á miðjunni og hefði verið gaman að sjá meira koma úr hans aðgerðum. Sýnir að hann getur leyst þetta hlutverk vel af hólmi.

Rúrik Gíslason, vinstri kantmaður 8 - maður leiksins

Fékk tækifæri í byrjunarliðinu í dag og nýtti það vel til að minna á sig. Var manna sprækastur þegar okkar menn voru heldur daufir í upphafi leiks og vítið sem hann fékk breytti leiknum fyrir Ísland.

Jón Daði Böðvarsson, framherji 5

Ávallt duglegur og gerði margt ágætlega þegar langir boltar komu fram. En það kom lítið úr hans aðgerðum og hann komst einhvern veginn aldrei i takt við leikinn.

Alfreð Finnbogason, framherji 6

Skoraði fyrsta mark Íslands úr vítaspyrnu af miklu öryggi en fékk annars úr litlu að moða. Öflugur þegar hann fékk þó boltann.

Varamenn:

Björn Bergmann Sigurðarson - (Kom inn á fyrir Alfreð á 46. mínútu) 5

Gerði ágætlega í aðdraganda mark Gylfa Þórs en hann breytti annars litlu í leik Íslands.

Sverri Ingi Ingason - (Kom inn á fyrir Ragnar á 46. mínútu) 5

Náði því miður ekki að bæta varnarleik Íslands.

Ari Freyr Skúlason - (Kom inn á fyrir Rúrik á 63. mínútu) 6

Kom inn af krafti. Vinnusamur að vana.

Gylfi Þór Sigurðsson - (Kom inn á fyrir Jón Daða á 63. mínútu) 7

Mark og stangarskot hjá Gylfa. Óhætt að hann gerði mikið fyrir sóknarleik Íslands eftir að hann kom inn á.

Samúel Kári Friðjónsson - (Kom inn á fyrir Emil á 82. mínútu) -

Spilaði of lítði til að fá einkunn.

Albert Guðmundsson - (Kom inn á fyrir Birki Bjarnason á 88. mínútu) -

Spilaði of lítið til að fá einkunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×