Innlent

Kerfisbilun sem olli truflunum í greiðslumiðlunarkerfi Visa komin í lag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Truflanir í alþjóðlegu greiðslumiðlunarkerfi Visa, sem ollu röskunum á greiðslum með Visakortum víða um Evrópu, þar á í meðal á Íslandi, eru komnar í lag.

Síðdegis í gær komu upp truflanir í alþjóðlegu greiðslumiðlunarkerfi Visa sem gerðu það að verkum að korthafar fengu í einhverjum tilfellum synjun þegar þeir reyndu að greiða með greiðslukorti. Vandamálið kom upp víða í Evrópu og hér á landi kunna einhverjir að hafa fundið fyrir truflunum sem áttu bæði við um debit og kreditkort.

„Þetta komst allt í lag eftir miðnætti í nótt,“ segir Jónína Ingvadóttir, deildarstjóri markaðsmála hjá Valitor.

Kerfisbilun hafi komið upp sem nú hafi verið lagfærð. Nokkur tilfelli hafi komið upp hér á landi en ekki hefur verið tekið saman hvert umfangið var hér á landi að sögn Jónínu. „Það var náttúrlega haft samband við okkur. Þetta var kannski heldur meira fyrir fólk með kort í útlöndum en hér,“ segir Jónína. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×