Erlent

Bandaríkjastjórn segir Kínverja sýna grannríkjum yfirgang í skjóli hernaðaryfirburða

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sendi Kínverjum tóninn á ráðstefnu í Singapúr.
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sendi Kínverjum tóninn á ráðstefnu í Singapúr. Vísir/AP
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að Kínverjar fari fram með hótunum og yfirgangi gegn nágrönnum sínum vegna hernaðarlega yfirburða. Hernaðartilburðir Kínverja í Suður-Kínahafi geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir heimsbyggðina.

Mattis lét þessi orð falla á ráðstefnu í Singapúr sem hann situr ásamt kollegum sínum frá flestum ríkjum austanverðrar Asíu. Hann lýsti áhyggjum Bandaríkjastjórnar af hernaðaruppbyggingu Kínverja í Suður-Kínahafi.

Kína gerir tilkall til eyja og hafsvæða sem nágrannar þeirra áseilast einnig. Til að styrkja stöðu sína hafa kínversk stjórnvöld gengið svo langt að byggja heilu eyjarnar frá grunni til þess eins að geta reist þar hernaðarmannvirki.

Mattis segir þetta sýna að hótanir og hervald séu yfirlýst stefna Kínverja í landamæradeilum og það skapi mikla hættu á átökum í framtíðinni.

Þá sendi Mattis Taívönum skýr skilaboð um að Bandaríkin væru skuldbundin til að verja eyjuna fyrir innrás Kínverja ef til þess kæmi.

Kína hefur aldrei afsalað tilkalli sínu til Taívan þrátt fyrir að þar hafi verið sjálfstæð stjórn í að verða sjötíu ár. Sjálfstjórn Taívana er mikill þyrnir í augum kínverskra ráðamanna og Bandaríkin hafa nýtt sér þann veika punkt með því að styrkja varnir Taívana.


Tengdar fréttir

Sektuð fyrir að segja herðartré koma frá Taívan

Stjórnvöld í Kína hafa sektað Japönsku fataverslunarkeðjuna Muji um rúmar þrjár milljónir króna fyrir að tilgreina Taívan sem upprunaland herðartrjáa sem það flutti inn til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×