Innlent

Innkalla Mexíkó lasagne, kjúklingalasagne og lasagne frá Krónunni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ofnæmis- eða óþolsvaldar eru ekki tilgreindir í merkingum á umbúðum Krónunnar.
Ofnæmis- eða óþolsvaldar eru ekki tilgreindir í merkingum á umbúðum Krónunnar. Vísir/Ernir
Krónan hefur, í samráði við matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, innkallað á Mexíkó lasagne, kjúklingalasagne og lasagne frá Krónunni af markaði vegna ómerktra ofnæmis- eða óþolsvalda. Gildir þetta um allar geymsluþolsdagsetningar en vörunum er dreift í verslanir Krónunnar um land allt.

Ofnæmis- og óþolsvaldarnir egg, sinnep og sellerí eru ekki tilgreindir í merkingum á umbúðum þeirra. Vöruheitin eru Mexíkó lasagne, kjúklingalasagne, lasagne með strikanúmerin 2208613010067, 2204532010065 og 2204520010060.

„Krónan Mexíkó lasagne inniheldur egg, sellerí og sinnep án þess að þeirra sé getið í listanum yfir innihaldsefnin á umbúðum vörunnar.  Krónan kjúklingalasagne og lasagne innihalda egg en þau eru ekki tilgreind í listunum yfir innihaldsefnin.  Egg og afurðir úr þeim, sellerí og afurðir úr því og sinnep og afurðir úr því eru á lista yfir ofnæmis- eða óþolsvalda,“ kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Samkvæmt matvælalöggjöfinni eiga ofnæmis- eða óþolsvaldar að vera skýrt merktir í merkingum matvæla. Vörurnar eru skaðlausar fyrir þá sem ekki eru viðkvæmir fyrir eggjum, selleríi og/eða sinnepi. Þeir neytendur sem eiga umræddar vörur og eru viðkvæmir fyrir ofangreindum ofnæmis- eða óþolsvöldum eru beðnir um að neyta þeirra ekki og farga eða skila þeim til þeirrar verslunar þar sem þær voru keyptar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×