Erlent

Sósíalistar taka við völdum á Spáni eftir vantraust á Rajoy

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Petro Sánchez verður forsætisráðherra Spánar.
Petro Sánchez verður forsætisráðherra Spánar. Vísir/Getty
Spænska þingið hefur samþykkt vantrauststillögu á forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy. Pedro formaður spænska Sósíalistaflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar mun taka við forsætisráðherrastólnum. BBC greinir frá.

180 þingmenn greiddu atkvæði með vantrauststillögunni en 169 þingmenn greiddu atkvæði gegn, einn sat hjá. Rajoy játaði ósigur áður en til atkvæðagreiðslunnar kom eftir að Sánchez tryggði sér stuðning ýmissa minni flokka á þingi.

„Við munum rita nýjar blaðsíður í sögu lýðræðisins í þessu landi,“ sagði Sánchez áður en að atkvæðagreiðslan fór fram.

Samkvæmt stjórnarskrá Spánar þarf leiðtogi þess flokks sem leggur fram vantrauststillögu að taka við stjórnartaunum sé vantraustið samþykkt. Því mun hinn 46 ára gamli Sánchez verða næsti forsætisráðherra Spánar, þrátt fyrir að Sósíalistaflokkur hans sé aðeins með um fjórðung þingsæta á spænska þinginu.

Vantraustið var borið fram vegna umfangsmikils spillingarmáls innan raða Partido Popular, flokki Rajoy. Á dögunum voru 29 flokksmenn dæmdir í 351 ár í fangelsi samanlagt í hinu svokallaða Gurtel-máli. Málið komst upp eftir að El País birti skjöl sem Luis Barcenas, fyrrverandi gjaldkeri PP, skrifaði um ólöglegar greiðslur til ýmissa flokksmanna.

Sánchez, sem er mikill áhugamaður um körfubolta, er hagfræðingur, og var fyrst kjörinn formaður Sósíalistaflokksins árið 2014. Eftir afhroð í kosningum 2015 og 2016 neyddist hann til að segja af sér en náði vopnum sínum á ný með því að sigra formannskosningar árið 2017.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×