Erlent

Hefur áhyggjur af framtíð Atlantshafsbandalagsins: „Pólitísk óveðurský á lofti“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Stoltenberg líkir upplausnarástandinu við "pólitískt óveðurský“ og að Trump hafi stofnað samvinnu vesturlandanna í hættu.
Stoltenberg líkir upplausnarástandinu við "pólitískt óveðurský“ og að Trump hafi stofnað samvinnu vesturlandanna í hættu. visir/getty
Það hriktir í stoðum Atlantshafsbandalagsins að sögn Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins en í grein sem hann skrifaði á Guardian í dag upplýsir hann um þá bresti sem hafa komið upp í samskiptum aðildarríkjanna sem starfa saman í hernaðarbandalaginu eftir að Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna.

Stoltenberg líkir upplausnarástandinu við „pólitískt óveðurský“ og að Trump hafi stofnað samvinnu vesturlandanna í hættu. Stoltenberg hefur verulegar áhyggjur af framtíð NATO og hefur brugðist við með því að biðla til allra aðildarríkjanna um að leggja hönd á plóg til að forða bandalaginu frá glötun.

„Frá því að bandalagið var stofnað fyrir rúmlega 70 árum síðan hafa íbúar Evrópu og Norður Ameríku notið fordæmalauss tímabils friðar og velsældar. En núna, aftur á móti, og að því er viðkemur hinu pólitíska sviði hafa komið upp brestir í samskiptunum.“

Það hriktir í stoðum Atlantshafssambandsins.vísir/getty
Helstu deilumálin eru viðskipti og tollamál, loftslagsbreytingar og kjarnorkusamningur við Íran en þar eru aðildarríkin á öndverðum meiði og Bandaríkin á skjön við vilja hinna ríkjanna.

„Þessi ágreiningur er raunverulegur og hann hverfur ekki á einni nóttu. Það stendur raunar hvergi að Atlantshafsbandalagið muni lifa af, vaxa og dafna til eilífðarnóns en það þýðir heldur ekki að sé upplausn sé óhjákvæmileg. Við getum hlúð að því og þeim sameiginlega ávinningi sem af því hlýst.“

Stoltenberg segir að Bandaríkin auk aðildarríkjanna verði að gera sér grein fyrir nauðsyn samheldni á þessum viðsjárverðu tímum sem við lifum í heimssögunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×