Skoðun

Áfram Ísland!

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Þessi helgi er líklega sú helgi sem við Íslendingar náum hvað best saman í mjög langan tíma. Við erum að hefja leik á HM í fyrsta sinn í sögunni, á móti einni bestu knattspyrnuþjóð í heimi. Uppselt er á leikinn og augu heimsins beinast að okkur. Hvernig sem leikurinn fer er afrek landsliðsins einstakt. Það er ekki bara í fótbolta þar sem við njótum velgengni, við erum komin á HM í handbolta karla og í kjörstöðu til að komast á HM kvenna í knattspyrnu á næsta ári. Kannski getum við dregið lærdóm af íþróttunum fyrir öll önnur svið þjóðfélagsins. Þegar við vinnum saman, þegar við stöndum saman eru okkur allir vegir færir.

Við búum í landi sem er í fremstu röð á öllum alþjóðlegum mælikvörðum sem skipta okkur máli. Við erum friðsælust, við stöndum fremst í jafnrétti kynjanna, hér er best að alast upp og við njótum mikillar efnahagslegrar velgengni sem er forsenda þess að við getum búið vel að okkar smæstu bræðrum og systrum. Á morgun er svo sjálfur þjóðhátíðardagurinn, 17. júní, þar sem við öll komum saman og gleðjumst yfir því að vera sjálfstæð þjóð.

Það er nefnilega þannig að það er gott að búa hér og það er gott að vera Íslendingur. Það erum við öll, innfæddir og nýir Íslendingar, sammála um.

Við ættum kannski að muna það oftar að velgengnin kemur þegar við vinnum saman.

Gleðilega hátíð.




Skoðun

Sjá meira


×