Bandaríkjastjórn er tilbúin til þess að gera fordæmalausan griðasamning við Norður-Kóreu í tengslum við kjarnorkuafvopnun síðarnefnda ríkisins.
Þetta segir Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en yfirlýsing hans kemur rúmlega hálfum sólarhring áður en þeir Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hittast á sögulegum fundi í Singapúr á þriðjudag. Fundurinn hefst klukkan níu að staðartíma, eða klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma.
Á vef Guardian segir að Pompeo hafi ekki farið nánar út í það hvað gæti falist í þeim griðasamningi sem Trump myndi bjóða Kim en sagði þó ljóst að samkomulagið myndi ganga lengra en loforð sem Bandaríkin gáfu Norður-Kóreu árið 2005.
„Við erum tilbúnir til að gefa Norður-Kóreumönnum ákveðin loforð svo þeir geti hafið afkjarnorkuvæðingu. Vð erum tilbúnir til að fara í aðgerðir sem munu veita þeim fullvissu um að þeir geti farið í kjarnorkuafvopnun áhyggjulausir um að hún muni ekki enda illa fyrir þá,“ sagði Pompeo við blaðamenn fyrr í dag og bætti við að Bandaríkin væru tilbúin að gefa Norður-Kóreu loforð sem væru öðruvísi en áður hefði verið gert.
Yfirvöld í Pyongyang sjá kjarnorkuafvopnun sem ferli sem tekið er skref fyrir skref þar sem bæði Bandaríkin og Norður-Kórea taki skref í átt að því fjarlæga lokamarkmiði sem væri alger kjarnorkuafvopnun.
Trump hefur áður lýst því yfir að hann krefjist algjörrar kjarnorkuafvopnunar Norður-Kóreu þar sem yfirvöldum í Pyongyang yrði umbunað með tryggingum í öryggismálum fari þau í einhliða aðgerðir með kjarnorkuafvopnun að markmiði.
Eftir því sem nær hefur dregið fundi þeirra Kim hefur forsetinn hins vegar ekki tekið jafn djúpt í árinni og gefið því undir fótinn að viðræðurnar gætu verið opnar í annan endann með fleiri samningaviðræðum í framtíðinni.
Á Twitter í dag sagði Pompeo síðan að Bandaríkin stæðu föst á því að Norður-Kórea skuli fara í algjöra kjarnorkuafvopnun.
