Skoðun

Fitch

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Í ónefndri skáldsögu gæti orðræða manns nokkurs byrjað svo: „Ég þekkti einu sinni matsmann í Strakónítz, hann var bróðir slátrarans sem kom gjarna til okkar í Bikarinn, en hvað um það, þessi matsmaður var óttalegur fábjáni?…“

Maður er nefndur Fitch. Matsmaður í útlöndum. Hann metur og metur og gefur einkunn í bókstöfum og með allskonar útúrdúrum, líkt og hann hafi lært hjá Menntamálastofnun, þessu apparati sem er alltaf að breyta því hvað krakkar fá í einkunn þegar þau fá 8,0 í landafræði.

Það er mikil íþrótt að meta og ekki öllum gefið að ná árangri. Þar ber sérstaklega að taka tillit til þess að þeir ku bestir í mati sem almennt og frammi fyrir alþjóð og alheimi hafa haft hvað vitlausast fyrir sér í matsgjörðum sínum. Þannig er það einmitt með þennan Fitch. Hann mat hér allt í bak og fyrir á árunum fyrir hrun og sá ekkert nema sól í heiði og kríur á hreiðrum; hann gaf okkur A+++ og A-++ og AB+ og aldrei minna en ABBA. Svo fór allt til helvítis, það fór að rigna og kríurnar hröktust af hreiðrum undan vargi.

Og hvað gerði þá ekki herra Fitch? Jú, þá hættir bölvaður maðurinn að meta okkur samkvæmt viðurkenndum stöðlum og án samráðs við Menntamálaráðuneyti og undirstofnanir þess (923 að tölu) og fer að meta með alveg nýjum hætti. Hann mat okkur upp á nýtt og setti í Ruslflokk. Sem sagði manni það að Fitch var ekki alveg ókunnugur íslenska flokkakerfinu – þótt hann færi fínt með það þegar allt lék í lyndi.

Nú er melurinn Fitch aftur kominn af stað; fréttir herma að Fitch hafi staðfest lánshæfiseinkunn ríkissjóðs fyrir langtímaskuldir í erlendri mynt sem A.

Hann er aftur kominn í bókstafakerfið – þessi Fitch frá Strakónítz!




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×