Erlent

Fimmtíu bílar fuðruðu upp

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Slysið átti sér stað á fjölfarinni hraðbraut.
Slysið átti sér stað á fjölfarinni hraðbraut. Vísir/Getty
Níu létust er olíuflutningabíll sprakk í loft upp í stærstu borg Nígeríu, Lagos, í gærkvöld.

Slysið átti sér stað á fjölfarinni hraðbraut í borginni. Eldurinn sem kom upp í olíuflutningabílnum barst í um 50 aðrar bifreiðar, þeirra á meðal voru fimm farþegaflutningabílar. 

Ökumaður olíuflutningabílsins er sagður hafa misst stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að olía helltist yfir mikið svæði. Þar að auki kunna bremsur bílsins að hafa verið ónýtar.

Bremsur bílsins kunna að hafa verið bilaðar.Visir/Getty
Sprengingar sem þessar eru sagðar vera algengar í Nígeríu á vef breska ríkisútvarpsins, en ríkið er stærsti olíuframleiðandi Afríku. Eldsneytið sé flutt langar leiðir á gömlum flutningabílum sem ekið er eftir lélegum vegum.

Talsmaður nígerísku vegagerðarinnar segir að svo virðist sem bílinn hafi oltið á hliðina þegar honum var ekið yfir brú. Þá hafi olía byrjað að leka hratt úr bílnum sem svo einhvern veginn kviknaði í. Eldurinn hafi svo borist á milli bifreiða á ógnarhraða.

Forseti Nígeríu, Muhammadu Buhari, segir að um sé að ræða eitt alvarlegasta slys í landinu á síðari árum. Nú verði allt kapp lagt á að bæta öryggismál til að tryggja að slíka slys verði ekki aftur að veruleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×