Innlent

15 þúsund krónur urðu að 650 þúsund

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Deila um öryggishliðið og gjaldið sem tengist því hefur staðið í fjögur ár.
Deila um öryggishliðið og gjaldið sem tengist því hefur staðið í fjögur ár. Vísir
Félagið Einn á móti X ehf. þarf að greiða frístundabyggðinni Ásum 15 þúsund krónur vegna uppsetningar á öryggishliði að frístundabyggðinni. Deila um gjaldið hefur staðið í tæp fjögur ár.

Frístundabyggðin er í landi Fells í Bláskógabyggð en eigandi jarðarinnar lagði veg um jörðina. Í ágúst var sent út fundarboð til félagsmanna í Ásum en tilefni fundarins var að taka ákvörðun um uppsetningu hliðs við þjóðveginn og að húsunum. Var það samþykkt. Eigandi Eins á móti, sem og eigendur jarðarinnar Fells, vildu ekki una uppsetningu hliðsins. Meðal annars ætluðu eigendur jarðarinnar sér að fjarlægja hliðið yrði það sett upp. Hliðið var engu að síður sett upp en Einn á móti vildi ekki taka þátt í kostnaði við uppsetningu þess. Málið var höfðað til innheimtu kostnaðarhluta hans.

Byggði Einn á móti meðal annars á því að hliðið takmarkaði notkun hans á lóð sinni og að félagið hefði ekki haft heimild til að setja hliðið upp. Þá bryti það á stjórnarskrárvörðum rétti hans til að standa utan félaga að skikka hann til aðildar í Ásum en svo er gert í lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús.

Hliðið er þannig hannað að hægt er að opna það með því að hringja í símanúmer. Einn á móti hafði ekki kosið að nota það númer og það því talið standa honum næst að falast eftir númerinu. Þá hafði hann tekið þátt í öllum aðgerðum félagsins og greitt gjöld þess og því ekki skyndilega hægt að byggja á réttinum til að standa utan þess. Ákvörðunin um uppsetninguna var talin lögmæt.

Auk krónanna 15 þúsund fyrir uppsetninguna þarf Einn á móti að greiða 650 þúsund í málskostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×