Erlent

Ríkisstjórn Póllands snýst hugur um umdeild helfararlög

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá minningarathöfn gyðinga um fórnarlömb helfararinnar í Auschwitz. Helfararlögin urðu kveikjan að opinberri gyðingaandúð í Póllandi.
Frá minningarathöfn gyðinga um fórnarlömb helfararinnar í Auschwitz. Helfararlögin urðu kveikjan að opinberri gyðingaandúð í Póllandi. Vísir/EPA
Ekki verður lengur glæpsamlegt saka Pólland um samsekt í glæpum nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Forsætisráðherra landsins hefur lagt fram frumvarp til að breyta umdeildum helfararlögum sem samþykkt voru fyrr á þessu ári sem lagði allt að þriggja ára fangelsi við því að bendla Pólland við helförina.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að breytingartillagan hafi þegar verið samþykkt í neðri deild pólska þingsins og hún hafi nú verið send öldungadeildinni. Michal Dworczyk, skrifstofustjóri Mateuszar Morawiecki forsætisráðherra, segir að tillagan feli í sér að það verði ekki lengur sakamál að tengja Póllandi við glæpi nasista. Hann lýsir breytingunni sem „leiðréttingu“.

Helfararlögin vöktu harða gagnrýni í Evrópu, Ísrael og víðar. Dworczyk segir að þrátt fyrir breytinguna nú komi lögin í veg fyrir að fólk geti talað um „pólskar útrýmingarbúðir“ án afleiðinga.

BBC segir að það hafi komið ríkisstjórn Póllands í opna skjöldu hversu hörð viðbrögðin við lagasetningu voru, ekki síst hjá lykilbandamönnum hennar í Bandaríkjunum og Ísrael. Skaðinn fyrir þau samskipti er sagður ástæðan fyrir viðsnúningnum nú.

Forseti Heimsráðs gyðinga (WJC) fagnaði ákvörðun pólskra stjórnvalda. Forstöðumaður Helfararsafnsins í Jerúsalem segir hana jákvæða þróun í rétta átt.


Tengdar fréttir

Ísraelar segja Pólverja afneita Helförinni

Ólöglegt verður að segja Pólverja meðseka í helförinni. Ísraelar segja að um sé að ræða Helfarar­afneitun og afbökun sannleikans. Pólska ríkisstjórnin er gáttuð á viðbrögðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×