„Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirlitinu hefur Airport Direct ekki starfsleyfi heilbrigðisnefndar til að starfrækja samgöngumiðstöð að Skógarhlíð 10,“ segir í svari skrifstofu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur til íbúa í Eskihlíð 10 sem ósáttir eru við rekstur nýju rútumiðstöðvarinnar.
Mögulegur óleyfilegur rekstur samgöngumiðstöðvar er sagður „í ferli“ hjá heilbrigðiseftirlitinu.
„Ef rekstur er hafinn án þess að tilskilin leyfi liggi fyrir þá er oftar en ekki heimild í lögum til þess að bregðast við með beitingu þvingunarúrræða til þess að knýja aðila til þess að fara að reglum,“ segir í bréfinu. Stjórnvöld séu bundin meðalhófsreglu sem feli í sér að fara ekki harðar í sakirnar en tilefni er til.
„Ef ljóst er að tilskilin leyfi fáist, þá er almennt ekki gripið til íþyngjandi úrræða eins og að stöðva resktur, nema sérstaklega brýnir hagsmunir séu í húfi.“

Undirstrikað er þó sem komið hefur fram að skipulag svæðisins komi ekki í veg fyrir rekstur samgöngumiðstöðvar á lóðinni.
Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, segir heilbrigðiseftirlitið nú skoða hvaða fyrirtæki, sem skráð eru í Skógarhlíð 10, séu mögulega að reka samgöngumiðstöð eða með annan rekstur sem sé starfsleyfisskyldur og án leyfa.
„Öllum fyrirtækjum sem þetta gæti mögulega átt við hefur verið skrifað og bent á að slíkan rekstur megi ekki stunda á staðnum án tilskilinna leyfa auk þess sem um allan rekstur gilda ákvæði reglna um hávaða og ónæði. Viðkomandi fyrirtækjum var veittur andmælaréttur og eins leiðbeint með kæruleiðir,“ segir Jón Halldór.
Gissur Páll Gissurarson, einn íbúanna í Eskihlíð, telur tafir á málsmeðferðinni kunna að gagnast rútufyrirtækjunum.
„Ég óttast að þessi tími sem þeir hafa til að hnýta lausa enda sé nýttur til að þvinga fram leyfi,“ segir Gissur Páll.