Innlent

Leitað að örmagna göngumanni á Fimmvörðuhálsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Fimmvörðuhálsi í morgun.
Frá Fimmvörðuhálsi í morgun. Orri Örvarsson
Þrjátíu björgunarsveitarmenn eru nú komnir upp á Fimmvörðuháls í leit að göngumanni sem örmagnaðist. Maðurinn er sagður halda kyrru fyrir við ákveðna stiku og er talið líklegt að hann finnist fljótlega.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að björgunarsveitarfólk hafi farið á bílum, vélsleðum og sexhjólum í leit að manninum. Á Fimmvörðuhálsi sé snjókoma og strekkingur og töluvert af nýföllnum snjó.

Þetta er þrjiða útkall björgunarsveita á Suðurlandi í dag. Útkallið nú kom á níunda tímanum í kvöld þegar björgunarsveitarfólk hafði rétt náð að klára kvöldmat eftir tvö önnur útköll í dag.

Fyrsta útkallið kom klukkan 4:07 í nótt en það var einnig á Fimmvörðuhálsi. Þar voru tveir ferðamenn í tjaldi í vanda staddir, kaldir og blautir. Næsta kom klukkan 14:33 þegar tilkynnt var um ferðamann sem var villtur og þrekaður milli Hvanagils og Emstra.

Landsbjörg minnir á að mikilvægt er að fólk sem hugar að ferðalögum á hálendi landsins fylgist með verðurspá og kynni sér aðstæður. Þó nokkuð sé enn af snjó á hálendinu sem geti torveldað ferðalög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×