Innlent

Björgunarsveitir aðstoðuðu ferðamann í vandræðum á hálendinu

Sylvía Hall skrifar
Úr útkalli í dag.
Úr útkalli í dag. Landsbjörg
Seinni partinn í dag voru björgunarsveitir á Suðurlandi aftur kallaðar út vegna ferðamanns sem var í vandræðum á hálendinu. Björgunarsveitarfólk var þá nýlega komið úr útkalli á Fimmvörðuhálsi frá því um nóttina þegar útkallið barst.

Ferðamaðurinn var á göngu á Syðra-Fjallabaki og hafði villst á milli Hvanngils og Emstra. Mikil þoka var á svæðinu, en sá hann að einhverju leyti til fjalla en áttaði sig þó ekki á staðsetningu sinni. Hann var í farsímasambandi og náði sambandi við björgunarsveitarfólk. 

Björgunarsveitarfólkið vissi af aðila á vegum Ferðafélags Íslands á svæðinu og bað hann um að keyra slóðann á því svæði sem talið var að maðurinn væri á, en hann hafði tengst farsímasendi og þannig var unnið að því að finna staðsetningu hans. 

Maðurinn var svo fluttur í Emstruskála af björgunarsveitarfólki sem gaf honum heitt að borða og drekka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×