
Talað hefur verið um að íbúar Norður-Kóreu búi í hliðstæðri veröld og séu heilaþvegnir til að trúa ótrúlegustu lygum um ágæti eigin leiðtoga og hörmungarástand í öðrum löndum.
Hversu mikið fólk trúir áróðrinum í raun og veru er hins vegar umdeilt og örugglega mismunandi eftir búsetu og öðru. Skilaboðin sem birtast í ríkisfjölmiðlum eru hins vegar oft góð vísbending um stöðuna í heimsmálum og afstöðu Kim stjórnarinnar.
Þegar ástandið er sem verst og blikur eru á lofti um stríð eða auknar viðskiptaþvinganir, birtast t.d. veggspjöld með hörðum skilaboðum um stríðsrekstur Bandaríkjamanna og leppríkja þeirra í Asíu.
Þjóðinni er á slíkum tímum sagt að búa sig undir að verja landið til síðasta manns gegn yfirgangi heimsveldastefnunnar. Myndmálið sýnir byssustingi og eldflaugar granda innrásarliðinu.

Þess í stað hafa sprottið upp veggspjöld sem hvetja til friðsamlegrar endursameiningar Kóreuskagans. Í dagblöðum og sjónvarpsútsendingum heyrist ekki lengur neitt neikvætt um forna fjendur. Þvert á móti er Trump Bandaríkjaforseta nánast daglega hælt sem framsýnum friðarsinna.
