Innlent

Gylfi Ólafs­son nýr for­stjóri Heil­brigðis­stofnunar Vest­fjarða

Gylfi Ólafsson hefur verið skipaður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Gylfi Ólafsson hefur verið skipaður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. stjórnarráðið
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að skipa Gylfa Ólafsson, heilsuhagfræðings, sem forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu segir að ákvörðun ráðherrans sé í samræmi við niðurstöðu lögskipaðrar nefndar sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana.

Gylfi lauk B.Ed.-gráðu sem grunnskólakennari frá Háskólanum á Akureyri og M.Sc. í hagfræði frá Stokkhólmsháskóla. Hann hefur lagt stund á doktorsnám í heilsuhagfræði við Karolinska í Stokkhólmi frá árinu 2013.

„Samhliða doktorsnámi hefur Gylfi starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi í heilsuhagfræði, sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands, auk þess sem hann stofnaði og rak nýsköpunarfyrirtækið Víur í Bolungarvík árin 2013 – 2016. Gylfi var aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra árið 2017.

Í umsögn hæfnisnefndar um Gylfa segir meðal annars að hann hafi nokkuð víðfeðma reynslu úr stjórnkerfinu og þekkingu á heilbrigðismálum í gegnum nám sitt og verkefni. Í umsögninni er einnig vísað til þess að hann hafi mikinn áhuga á að gegna embætti forstjóra við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og hafi kynnt sér vel starfsemi hennar,“ segir í tilkynningunni.

Greint var frá því á Vísi í byrjun apríl að þrír yfirmenn hefðu sagt upp störfum hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Um var að ræða forstjórann, fjármálastjórann og mannauðsstjóra stofnunarinnar.

Í kjölfarið var fjallað um það á vef RÚV að andrúmsloftið á stofnuninni hefði verið þungt lengi. Var þar meðal annars rætt við fráfarandi fjármálastjóra sem sagði bókhald stofnunarinnar vera í miklum ólestri og ekki stemmt af þegar hún tók við síðasta haust.

 

Daginn eftir sendi stjórn starfsmannafélags stofnunarinnar frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að starfsfólki þætti erfitt að stija undir fréttum þess efnis að erfiður vinnumórall, grasserandi neikvæðni og þungt andrúmsloft ríki á vinnustaðnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×