Erlent

Kannabis lögleitt í Kanada

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kanada fetar í fótspor Úrúgvæ.
Kanada fetar í fótspor Úrúgvæ. Vísir/Getty
Öldungadeild kanadíska þingsins samþykkti í gærkvöld að heimila alfarið vímuefnið kannabis í landinu. Löggjöfin sem samþykkt var í gærkvöldi, með 52 atkvæðum gegn 29, kveður á um hvernig efnið skuli ræktað, selt og hvernig því skuli dreift í Kanada. Ætlað er að Kanadamenn geti löglega keypt sér kannabis með haustinu.

Varsla kannabis varð fyrst gerð ólögleg í Kanada árið 1923 en notkun efnisins í lækningaskyni var heimiluð árið 2001. Á næstu mánuðum geta Kanadamenn hins vegar keypt sér kannabis og kannabisolíu hjá vottuðum söluaðilum í völdum útibúum. Kannabiskaupaaldurinn verður 18 ár en nokkur kanadísk héröð hafa farið fram á að hann verði 19 ár.

Með samþykkt gærkvöldsins er Kanada þar með annað landið í heiminum sem löggildir vímuefnið að fullu en Úrúgvæ reið á vaðið árið 2013. Þá hafa nokkur fylki í Bandaríkjunum einnig rýmkað löggjafir sínar í málaflokknum.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, fagnaði niðurstöðunni í gærkvöldi. Hann segir að fram til þess hafi börn átt of auðvelt með að nálgast efnið í landinu - „og fyrir glæpamenn að hirða gróðann.“

Talið er að Kanadamenn hafi varið næstum 500 milljörðum króna í kannabis árið 2015, álíka miklu og í vín það árið.

Löggæsluyfirvöld og sveitarstjórnir munu fá um 8 til 12 vikur til að undirbúa sig fyrir lagabreytinguna. Er það talinn nægur tími til að koma á laggirnar hinum formlegu kannabisverslunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×