Erlent

Átta ára belgískur drengur á leið í háskóla

Atli Ísleifsson skrifar
Drengurinn mun hefja nám í háskóla að loknu tveggja mánaða sumarfríi.
Drengurinn mun hefja nám í háskóla að loknu tveggja mánaða sumarfríi. Vísir/Getty
Átta ára belgískur drengur stefnir á að hefja nám í háskóla í haust eftir að hafa lokið við námsefni sex skólaára á einu og hálfu ári.

BBC greinir frá því að greindarvísitala drengsins, Laurent Simons, sé 145 og að hann hafi í vor útskrifast með hópi átján ára ungmenna.

Í samtali við belgísku útvarpsstöðina RTBF segir Laurent uppáhaldsfag sitt vera stærðfræði þar sem „það sé svo víðtækt, með tölfræði, rúmfræði og algebru“. Hann mun hefja nám í háskóla að loknu tveggja mánaða sumarfríi.

Faðir Laurent segir að son sinn hafa átt í vandræðum með að leika við önnur börn þegar hann var yngri og ekki sýnt leikföngum mikinn áhuga.

Laurent kveðst hafa íhugað að gerast skurðlæknis eða geimfari þegar hann verður eldri en að hann stefni nú að því að vinna með tölvur.

„Ef hann myndi ákveða á morgun að gerast smiður, þá væri það í okkar huga ekkert vandamál, svo fremi sem að hann sé hamingjusamur,“ segir faðir Laurent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×