Fótbolti

Deschamps: Er þjálfari til að upplifa svona leiki

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Deschamps og Griezmann fallast í faðma
Deschamps og Griezmann fallast í faðma Vísir/Getty
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, var að vonum ángæður að loknum sigri Frakka á Argentínu í 16-liða úrslitum HM í Rússlandi. Leiknum lauk með 4-3 sigri Frakka.

„Ég er þjálfari til þess að upplifa svona leiki, fullir vellir og frábær lið að spila á hæsta stigi fótboltans,“ sagði Deschamps á blaðamannafundi eftir leikinn í Kasan í dag.

„Þetta var ekki auðveldur leikur en við reyndum okkar besta. Ég er mjög stoltur og ánægður fyrir hönd strákanna. Við máttum ekki misstíga okkur í dag og við gerðum það ekki.“

Argentínumenn voru meira með boltann í leiknum en náðu ekki að skapa sér eins hættuleg færi og Frakkar. Deschamps sagði það ekki hafa verið upplagið að liggja til baka og leyfa Argentínu að vera með boltann.

„Það var ekki viljandi gert. Því meira sem við vorum með boltann því meira þurfti Argentína að verjast sem er betra fyrir okkur því argentínska liðið er betra í að sækja en að verjast. Þrátt fyrir að þeir hafi verið meira með boltann þá gerðu þeir ekki mikið með hann, sendu hann sín á milli án þess að ógna okkur mikið.“

„Þrátt fyrir að vera minna með boltann hefðum við auðveldlega getað skorað fleiri mörk,“ sagði Didier Deschamps.

Frakkar mæta annað hvort Úrúgvæ eða Portúgal í 8-liða úrslitunum. Leikur Úrúgvæ og Portúgal hefst klukkan 18:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×