Innlent

Hælisleitendur fara úr Stigahlíð um áramótin

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Vísir/Böddi
Leigusamningur um húsnæði í Stigahlíð fyrir hælisleitendur rennur út um áramótin og mun Reykjavíkurborg ekki endurnýja samninginn þar sem illa hefur gefist að búa vel um svo marga í einu húsnæði. Lögregla var kölluð til í nótt þegar íbúi leitaði blóðugur til nágranna eftir hjálp vegna átaka.

Á níunda tímanum í gærkvöldi var lögregla kölluð að húsnæði fyrir hælisleitendur í Stigahlíð eftir tilkynningu um íbúi með sjáanlega áverka og blóðugur hafi bankað upp hjá nágranna.

Lögregla hefur ítrekað þurft að hafa afskipti af íbúum hússins á undanförnum mánuðum en um er að ræða tímabundið úrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Samkvæmt heimildum komu upp átök hjá íbúum og leituðu tveir þeirra á slysadeild eftir atvikið. Þeir reyndust þó ekki alvarlega slasaðir.

Allt að sextán einstaklingar hafa búið í einbýlishúsinu sem er um 350 fermetrar að stærð. Reykjavíkurborg hefur leigt húsnæðið af eiganda frá árinu 2015 á um 1,3 milljónir króna á mánuði.

Nágrannar hafa kvartað undan úrræðinu til borgarinnar og haft áhyggjur af aðbúnaði íbúa í húsinu og öryggi í hverfinu.

Fulltrúar borgarinnar funduðu með nágrönnum í hverfinu á dögunum og voru þeir upplýstir um að ekki standi til að framlengja leigusamninginn sem rennur út um áramótin.

Samkvæmt upplýsingum frá borginni stendur til að finna nýtt húsnæði og þá minna. Þetta sé eina húsnæðið á vegum borgarinnar sem hafi hýst svo marga hælisleitendur. Það hafi ekki gefist vel og mun borgin héðan af reyna að komast hjá því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×