Skoðun

Aumingjaskapur

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Þjóðinni er fyrir löngu orðið ljóst að ekki er fullkomlega hægt að treysta á að stjórnvöld haldi vöku sinni í mikilvægum málum. Stundum er einfaldlega eins og þau séu úti á þekju. Þá þarf að vekja þau til lífsins og það getur kostað átak. Þetta sýnir sig í mörgu, en ekki síst þegar kemur að því að slá skjaldborg um náttúru landsins. Þá slær jafnvel þögn á málgefnustu stjórnmálamenn sem kjósa að vera stikkfrí.

Á dögunum tók Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði, að sér að ávíta stjórnvöld. Þar vann hann þarft verk. Björn benti á að erlendur auðmaður hefur keypt upp heilu jarðirnar hér á landi án þess að brugðist væri við. Björn sagði það vera aumingjaskap dauðans að ekki skyldi tryggt að verðmætt land og landsvæði væru í eigu þjóðarinnar. Björn bóndi er þarna á sömu slóðum og hinn skeleggi Ögmundur Jónasson sem fyrir tæpum tveimur árum sagði það „órækan vitnisburð um vesaldóm íslenskra stjórnvalda“ að hafa heimilað sölu Grímsstaða á Fjöllum til þessa sama auðmanns, sem er víst stöðugt að færa út kvíarnar hér á landi.

Það getur ekki verið óskastaða að auðmenn eignist hér stór landsvæði. Samt er það látið óátalið. Þegar kemur að varðveislu landsvæða og sjálfsagðri náttúruvernd er andvaraleysi ráðamanna landsins æpandi. Það hefði átt að vera akkur í því að fá í ríkisstjórn Vinstri græn, flokk sem kennir sig við umhyggju gagnvart náttúru landsins og flaggar náttúruverndarsjónarmiðum óspart á landsfundum. Flokkurinn virðist hins vegar hafa afar takmarkaðan áhuga á að beita sér í þágu íslenskrar náttúru í ríkisstjórnarsamstarfi með tveimur enn áhugalausari samstarfsflokkum.

Vinstri græn virtust vera á réttri leið í upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins þegar sóttur var í stól umhverfisráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þekktur umhverfisverndarsinni. Innan ríkisstjórnarinnar er samt eins og þess sé alls ekki óskað að hann taki starf sitt alvarlega heldur verði til friðs. Áhugafólk um póli­tík bíður spennt eftir því hvort umhverfisráðherra taki hag landsins, og þar með þjóðarinnar, fram yfir friðsælt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Ráðherranum virðist ætlað að vera upp á punt í þessari ríkisstjórn. Vonandi mun hann ekki sætta sig við það hlutskipti.

Aftur skal vitnað í Björn Halldórsson bónda sem í viðtali furðaði sig á því að ekki skuli horft fram í tímann. Verði ekkert gert til að koma í veg fyrir að erlendir auðmenn eignist hér stór landsvæði mun kynslóðinni sem nú er að vaxa úr grasi og þeim kynslóðum sem á eftir koma bregða verulega í brún þegar þeim verður ljós sú staðreynd að skammsýnir stjórnmálamenn sátu aðgerðarlausir og áhugalausir hjá meðan erlendir auðkýfingar hrifsuðu til sín dýrmæt landsvæði.

Íslensk stjórnvöld geta enn brugðist við. Svo er annað mál hvort þau kæri sig um það. Kannski vilja þau viðhalda aumingjaskapnum og hafa engan áhuga á að hrista af sér vesaldóminn. Þá er illa komið fyrir þeim, en enn verr komið fyrir þjóðinni sem kaus þau yfir sig.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×