HK/Víkingur vann góðan útisigur á FH í 10. umferð Pepsi-deildar kvenna í Kaplakrika í kvöld. Leikurinn endaði 3-1 eftir að heimakonur höfðu komuit yfir í upphafi leiks með glæsilegu marki frá Evu Núru Abrahamsdóttur.
Mörk HK/Víkings skoruðu Fatma Kara, Hildur Antonsdóttir og Kader Hancar. Með sigrinum lyfti HK/Víkingur sér upp fyrir ÍBV í fimmta sæti deildarinnar með 13 stig en FH situr nú á botninum með sex stig.
Heimakonur byrjuðu leikinn mun betur í kvöld, þær náðu að halda boltanum betur innan liðsins og voru sífellt hættulegar. Aftasta lína gestanna gerði oft klaufaleg mistök og það var eftir ein slík sem fyrsta markið kom.
Gestirnir áttu þá misheppnaða hreinsun, boltinn datt fyrir Evu Núru Abrahamsdóttur sem skaut boltanum viðstöðulaust upp í hornið vinstra megin – óverjandi fyrir Björk Björnsdóttir í marki gestanna.
Eftir markið vann HK/Víkingur sig hægt og rólega inn í leikinn. Bæði lið sýndu mikla báráttu á miðsvæðinu en náðu að skapa lítið af opnum færum. Undir lok fyrri hálfleiksins fékk HK/Víkingur aukaspyrnu á miðjum vellinum.
Gígja Valgerður Harðardóttir sendi boltann inn í teiginn þar sem Hildur Antonsdóttir féll við, að því er virtist eftir að Melkorka Katrín Pétursdóttir reif í hárið á henni, og Kristinn Friðrik Hrafnsson, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu. Úr henni skoraði Fatma Kara örugglega. Var það síðasta spyrna fyrri hálfleiksins og var staðan því jöfn að honum loknum.
Gestirnir komu af krafti inn í síðari hálfleikinn og uppskáru mark strax á 52. mínútu. Þar var að verki Hildur Antonsdóttir. Hún átti þá gott skot yfir Anítu Dögg Guðmundsdóttir í marki Hafnfirðinga, eftir góðan undirbúning frá Kader Hancar, sem kom inn í lið gestanna í byrjun síðari hálfleiks.
Kader, sem kom til HK/Víkings á dögunum, átti mjög góða innkomu í leikinn og er ljóst að hún er mikill fengur fyrir liðið.
Eftir annað markið héldu gestirnir áfram að stjórna leiknum.
Sóknir þeirra enduðu þó yfirleitt með skotum af löngum færum sem Aníta átti ekki í miklum vandræðum með. FH-ingar reyndu hvað þær gátu að jafna leikinn en þá vantaði yfirvegun á síðasta þriðjungnum.
Gestirnir voru alltaf líklegri til að bæta í en heimakonur að jafna og fór svo að Kader tryggði sigurinn með skemmtilegi skoti yfir Anítu í markinu eftir sendingu frá Fatma Kara. Sanngjarn sigur gestanna því staðreynd.
Af hverju vann HK/Víkingur?
FH byrjaði leikinn betur en HK/Víkingur unnu sig inn í leikinn eftir að hafa lent undir. Með innkomu Kader bættist sóknarleikur gestanna til muna og þær áttu mun hættulegri færi í síðari hálfleiknum.
FH virtist missa hausinn þegar þær fengu markið á sig í upphafi síðari hálfleiks og sáu ekki til sólar eftir það.
Hverjir stóðu upp úr?
Hildur Antonsdóttir stóð sig frábærlega í liði HK/Víkings, sýndi mikla baráttu og hélt boltanum vel. Einnig voru Tyrkirnir í liði HK/Víkings, Fatma Kara og Kader Hancar, mjög líflegar.
Í liði heimakvenna var það helst Eva Núra sem sýndi góða takta.
Hvað gekk illa?
Til að byrja með gekk varnarleikur gestanna illa, þær áttu oft á tíðum í vandræðum með að hreinsa frá og eftir ein slík mistök fengu þær á sig mark. Í síðari hálfleik gáfu þær þó fá færi á sig og FH-ingum gekk illa að halda boltanum innan liðsins og skapa færi.
Hvað gerist næst?
Í næstu umferð deildarinnar tekur HK/Víkingur á móti Þór/KA í erfiðum leik á meðan FH-ingar ferðast til Vestmannaeyja og mæta þar ÍBV.
Þórhallur: Liðsheildin til fyrirmyndar
„Þetta var virkilega sætt. Mér fannst við eiga virkilega góðan leik, við vorum kannski slappar fyrsta hálftímann en eftir það fannst mér við vera virkilega góðar. Við sköpuðum fullt af færum og skoruðum nokkur mörk,“ sagði Þórhallur Víkingsson, þjálfari HK/Víkings, sáttur í leikslok.
„Mér fannst liðsheildin og vinnusemin sem við sýndum í seinni hálfleik algjörlega til fyrirmyndar.“
Þórhallur setti Kader Hancar, sem kom til liðsins á dögunum, inn á í upphafi síðari hálfleiks og átti hún góðan leik í dag.
„Við höfum þannig lagað ekki séð mikið til hennar en hún virðist vera ekta striker og hún kláraði færið sitt ógeðslega vel.“
FH-ingar byrjuðu leikinn í dag betur en HK/Víkingur voru mun sterkari í síðari hálfleik.
„Við gerðum þetta líka á móti KR á dögunum, þá byrjaði KR betur. Við þurfum að koma sterkari inn í leikina. Við förum í gang þegar við fáum á okkur mark og það sýnir sterkan karakter í liðinu,“ sagði Þórhallur sem er sáttur með stigasöfnun liðsins það sem af er sumri.
„Við erum að telja stig og sjáum hvað það gefur okkur í lokin. Það er virkileg gott að taka stig á móti liðum sem eru í kringum okkur í deildinni.“
Orri: Erum alltaf að læra
Orri Þórðarson, þjálfari FH, var að vonum svekktur í leikslok.
„Við vorum feykilega góðar í fyrri hálfleik, þá var bara eitt lið á vellinum. Þess vegna var svolítið súrt að fá á sig víti í uppbótartíma. Svo fáum við á okkur mark strax í upphafi síðari hálfleiks og þá fannst mér eins og við misstum hausinn.”
„Við fórum að gera aðra hluti en við gerðum í fyrri hálfleik. Það sem við gerðum vel í fyrri hálfleik var að láta boltann ganga, að finna opnanir og stjórna leiknum. En eftir að þær komust yfir þá fórum við að flýta okkur allt of mikið þrátt fyrir að það væru 35 mínútur eftir.“
Melkorka Katrín Pétursdóttir fékk dæmda á sig vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks eftir að hún virtist rífa í hár Hildar Antonsdóttur. Hvað fannst Orra um þann dóm?
„Ég bara sá það ekki. Það getur vel verið að þetta hafi verið víti og allt gott og blessað með það.”
„Það sem við vorum ósátt með var aukaspyrnan sem var dæmd úti á kantinum í aðdragandanum þegar tveir leikmenn fara í tæklingu og boltinn hrekkur upp í höndina á okkar manni sem er með höndina í mjög eðlilegri stöðu.”
„Fyrir mér er það aldrei hendi. En svona hlutir gerast í fótbolta, þú færð suma dóma með þér og suma á móti.
FH-ingar sitja eftir leikinn á botni deildarinnar.
„Eins og ég sé þetta núna eru það við, KR, Grindavík og Selfoss. Þetta verður barátta allt til enda,“ sagði Orri sem ætlar ekki að leggja árar í bát.
„Þetta er mjög ungt lið sem við teflum fram, langyngsta liðið í deildinni. Við erum bara alltaf að læra. Við þurfum bara að halda áfram og sýna karakter því þetta er mjög jafnt við botninn.“
Hildur: Fáum meðbyr þegar við erum með bakið upp við vegg
Hildur Antonsdóttir spilaði mjög vel í liði HK/Víkings í kvöld og var hún mjög sátt með sigurinn.
„Við byrjuðum leikinn ekki af fullum krafti en mér fannst við koma sterkar til baka í seinni hálfleik. Við fáum bara meðbyr þegar við erum með bakið upp við vegginn og keyrum þá bara á þetta. Það gefur okkur smá boost til að ná marki.“
Hildi lýst vel á sinn nýja liðsfélaga, Kader Hancar.
„Hún er hröð, klárar færi vel og er með góðar sendingar. Þú getur ekki beðið um mikið meira.“
HK/Víkingur er nú í fimmta sæti deildarinnar, en fáir bjuggust við því fyrir mótið. Gengið í sumar kemur Hildi þó ekki á óvart.
„Við erum með góðan mannskap og góða liðsheild. Það þarf ekki meira en það. Við tökum einn leik í einu. Reynum að taka stig í næsta leik sem verður erfiður. Við setjum markið hátt,“ sagði Hildur bjartsýn á framhaldið.