Erlent

Segir Mueller halda sambandi Bandaríkjanna og Rússlands í gíslingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. Vísir/AP
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, segir rannsókn Robert Mueller, sérstaks saksóknara dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, haldi sambandi Bandaríkjanna og Rússlands „í gíslingu“. Þetta sagði Pútín í viðtali við Chris Wallace hjá Fox News nú í kvöld.

Fyrst sagðist hann þó ekki hafa nokkurn áhuga á málefninu, eftir að Wallace spurði út í álit hans á því að Mueller hefði gefið út ákærur gegn tólf starfsmönnum leyniþjónusta Rússlands, þremur dögum fyrir fund hans og Trump.



„Þetta eru innri stjórnmálaleikir Bandaríkjanna. Ekki halda sambandi Bandaríkjanna og Rússlands í gíslingu með þessari innri deilu,“ sagði Pútín. Hann bætti við að Bandaríkjamenn ættu ekki að vera stoltir af rannsókn Mueller og svo „óheiðarlegum“ aðferðum, eins og hann orðaði það. Rannsóknin gæfi ekki góða mynd af bandarísku lýðræði.

Hlutverk Mueller er að rannsaka afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og hvort að starfsmenn framboðs Trump hafi starfað með Rússum. Þá rannsakar hann einnig hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar með því að reka James Comey, fyrrverandi yfirmann Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI. Mueller var skipaður í embætti eftir að Trump viðurkenndi í sjónvarpsviðtali að hafa rekið Comey vegna Rússarannsóknarinnar svokölluðu.

25 rússneskir ríkisborgarar og þrír rússneskir lögaðilar hafa verið ákærðir fyrir afskipti af kosningunum. Ein rússnesk kona var handtekin á sunnudaginn.

Sjá einnig: Upplýsingahernaður háður úr „Tröllaverksmiðju“ í Pétursborg



Wallace spurði Pútín því næst hvort hann teldi Mueller vera að reyna að skemma samband Bandaríkjanna og Rússlands.

Pútín sagðist ekki vilja tjá sig um það. Þó sagðist hann telja að Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sæji eftir því að hafa skipað Mueller í embætti sérstaks saksóknara.

„Það kemur mér þó ekki við,“ bætti Pútín við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×