Skoðun

Hinn vitiborni

Lára G: Sigurðardóttir skrifar
Langamma mín varð níu barna ekkja 33 ára gömul þegar hafið tók langafa árið 1912. Hún missti ekki einungis manninn sinn heldur fyrirvinnu. Bústofninn var settur á uppboð og hún sá fyrir sér að missa lífsviðurværi fjölskyldunnar. Enginn mætti á uppboðið og langamma fékk tækifæri til að rétta af hag sinn. Sem hún gerði. Með því sýndu Hafnfirðingar Guðrúnu í Ási dygga samkennd.

Þegar fréttir bárust af drengjum innlyksa í helli í Taílandi hélt heimurinn niðri í sér andanum á meðan færustu kafarar heims lögðu sig í lífshættu til að frelsa drengina úr prísundinni. Allt gekk eins og í sögu fyrir utan sorgarfréttina um kafarann sem lést. Og maður fann fyrir létti þegar drengirnir og björgunarteymið voru komin í faðm fjölskyldunnar.

Á sama tíma og menn leggja líf sitt að veði til að sameina börn og foreldra þeirra aftur berast fregnir af þjóðarleiðtoga sem vísvitandi aðskilur börn frá foreldrum með einni ómannúðlegustu innflytjendastefnu sem hugsast getur.

Hvernig í ósköpunum getur sama dýrategundin – hinn vitiborni maður – sýnt á sér svo ólíkar hliðar: djúpa samkennd með því að setja sig í lífshættu fyrir aðra og verstu grimmd með því að skaða meðvitað ósjálfbjarga börn?

Þróunarfræðilega erum við með tvenns konar heila: gamlan heila sem svipar til dýraheila og stjórnast af eiginhagsmunum án tilfinninga, og nýjan heila sem aðgreinir okkur frá dýrum. Við tökum meðvitaðar ákvarðanir með nýja heilanum sem er í miklum samskiptum við þann gamla. Getur verið að nýi heilinn sé við stýrið hjá björgunarmönnunum en sá gamli fjarstýri þjóðarleiðtoganum?

Menn sem bera hagsmuni annarra fyrir brjósti standa undir nafni sem hinn vitiborni maður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×