Þar á meðal eru tilslakanir í umhverfisverndarlögum en Repúblikanar hafa talið fyrir því að leggja niður loftslagsstofnun Bandaríkjanna með öllu. Stofnunin sér um að framfylgja lögum og stöðlum um menganir og umhverfisvernd.
Musk styrkti Protect the House um meira en fjórar milljónir króna en alls söfnuðust um 850 milljónir á síðasta ársfjórðungi. Það þýðir að hann hafnaði á lista yfir 50 örlátustu styrktaraðila þeirra.
Þetta vekur athygli í ljósi þess að Musk er yfirlýstur sósíalisti og segist hafa stofnað rafbílafyrirtækið Tesla til að berjast gegn loftslagsbreytingum.
Repúblikanar á Bandaríkjaþingi viðurkenna hins vegar fæstir loftslagsvísindi yfir höfuð, hvað þá að þeir láti sig umhverfismál varða. Hefur Musk gagnrýnt stjórnmálamenn harðlega í gegnum tíðina fyrir slíka afneitun.
Musk hefur varið síðustu klukkutímum í nauðvörn á Twitter þar sem hann segir meðal annars „I am not a top donor to any political party“ – sem virðist vísvitandi útúrsnúningur þar sem enginn hefur sakað hann um neitt slíkt.
Hann er hins vegar á lista yfir „top donors“ þessara samtaka sem berjast fyrir yfirráðum Repúblikana á þinginu. Þeirri ásökun kýs hann að svara ekki með beinum hætti.
Musk segir einnig á Twitter síðu sinni að hann hafi aldrei sjálfur skrifað undir neina ávísun til stjórnmálasamtaka, það er aftur útúrsnúningur þar sem alltaf hefur legið fyrir að um millifærslur var að ræða frá fyrirtæki hans.
Sagður nota taílensku drengina sér til framdráttar
Þetta er búin að vera slæm vika fyrir Elon Musk en hann sætir harðri gagnrýni fyrir að troða sér inn i fjölmiðlaumfjöllun um taílensku fótboltadrengina sem sátu fastir í helli.Musk mætti á svæðið og fékk að fara inn í hellinn til að kanna aðstæður fyrir lítinn kafbát sem hann vildi nota til að ná drengjunum út.
Sérfræðingar sem unnu að björgun drengjanna hafa meðal annars sagt Musk að troða kafbátnum upp í óæðri endann á sér og skammast sín fyrir uppátækið. Aldrei hafi verið möguleiki á að tækið virkaði og tilgangur Musk hafi verið að auglýsa sjálfan sig og fyrirtæki sín. Honum hafi verið sagt að hypja sig frá vettvangi.