Ísland hefur tekið sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna eftir atkvæðagreiðslu á allsherjarþinginu.
Fulltrúar 178 ríkja voru viðstaddir en 5 sátu hjá. Atkvæði féllu þannig að Ísland fékk 172 atkvæði en Frakkland 1 atkvæði.
Þegar niðurstöðurnar voru lesnar upp brutust út hlátrasköll í salnum enda „sigur“ Íslands nokkuð afgerandi. Þar sem kosningin er leynileg veit enginn hver greiddi Frökkum atkvæði. Búist hafði verið við að nafn Íslands væri á öllum atkvæðaseðlum, og þótti mörgum greinilega fyndið að ein mótþróasál í salnum hafi kosið Frakka þó að það breytti engu um úrslitin.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var viðstaddur og var honum óskað til hamingju með lófataki viðstaddra.
Það var þó vitað löngu fyrir að Íslandi hlyti sæti í ráðinu enda náðist samstaða í ríkjahópi Vesturlanda hjá Sameinuðu þjóðunum um að Ísland tæki við sætinu sem losnaði þegar Bandaríkjastjórn sagði sig frá ráðinu.
#Iceland has just been elected to the #HRC to serve on the Council until the end if 2019. I appreciate the broad support of #UN Member States. pic.twitter.com/xzrjUoEjqo
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) July 13, 2018