Króatar eru komnir alla leið í undanúrslitin á HM þökk sé sterkum taugum leikmanna liðsins í vítakeppnum.
Króatar unnu nefnilega bæði Dani og Rússa í vítaspyrnukeppni. Króatar hafa reyndar klikkað á þremur vítaspyrnum en það kom ekki að sök. Þeir unnu Dani 3-2 og Rússana 4-3.
Í báðum tilfellum var það Ivan Rakitic sem skoraði úr síðustu vítaspyrnu Króata og skaut liðið áfram í næstu umferð.
Það gátu þó ekki allir séð Ivan Rakitic tryggja sigurinn á móti Rússum. Nú hefur verið gert opinbert skemmtilegt myndband frá slökkviliðsmönnum í Króatíu.
Slökkviliðsmennirnir eru miklir stuðningsmenn króatíska landsliðsins og fylgdust því spenntir með vítakeppninni á stöðinni, nær allir klæddir í treyju landsliðsins.
Slökkviliðsmennirnir voru hinsvegar líka á vaktinni og þeir fengu síðan útkall í miðri vítaspyrnukeppni eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.
These Croatian firefighters were about to watch Ivan Rakitic send them into a #WorldCup semi-final... and then duty called pic.twitter.com/2np9ezHsJs
— Indy Football (@IndyFootball) July 11, 2018
Það urðu þó nokkrir þeirra eftir sem fögnuðu vel og gátu síðan væntanlega látið félaga sína vita í talstöðinni að króatíska landsliðið væri komið í undanúrslit HM í fyrsta sinn í tuttugu ár.