Englendingar fengu draumabyrjun á leiknum þegar varnarmaðurinn Kieran Trippier skoraði sitt fyrsta landsliðsmark fyrir England beint úr aukaspyrnu á 5. mínútu. Glæsilegt mark sem Danijel Subasic átti ekki möguleika á að verja.
Leikurinn var fjörugur í fyrri hálfleik og áttu bæði lið fín marktækifæri. Harry Kane komst nálægt því að tvöfalda forystuna á 30 mínútu en Subasic varði frá honum áður en Kane setti frákastið í stöngina. Hann var síðar dæmdur rangstæður, líklega rangur dómur sem hefði mögulega verið tekinn til baka hefði Kane sett boltann í netið.
Örfáum mínútum seinna komst Ante Rebic í fínt færi en skot hans beint á Jordan Pickford í marki Englendinga. Hvorugu liðinu tókst að bæta við og staðan 1-0 í hálfleik. Þegar dómarinn flautaði til hálfleiks voru myndbandsdómarar fengnir til þess að fara yfir það hvort Króatar ættu að fá vítaspyrnu vegna peysutogs í teignum upp úr aukaspyrnu Luka Modric en ekkert var dæmt.

Pressa Króatanna bar árangur á 68. mínútu þegar Ivan Perisic skoraði. Sime Vrsaljko átti fyrirgjöf inn á teiginn, Perisic kom á sprettinum utan af vængnum og komst fram fyrir Kyle Walker í teignum, potaði fæti í boltann og skilaði honum í netið.
Aðeins fimm mínútum seinna mátti engu muna að Króatar kæmust yfir þegar Perisic skaut í stöngina úr frábæru færi. Rebic fékk frákastið en skot hans beint á Pickford í markinu.
Króatar héldu áfram að pressa og voru miklu sterkari en Englendingarnir. Þeir virtust slegnir út af laginu og áttu fá sem engin opin færi í seinni hálfleik.
Sigurmarkið kom ekki og þurfti að grípa til framlengingar.

Í seinni hálfleik framlengingarinnar var það svo Mario Mandzukic sem náði að skora hið mikilvæga sigurmark. Perisic skallaði boltann í svæði inn á teignum, Mandzukic var á undan Stones í boltann og eins sterkur framherji og Mandzukic gat ekki annað en klárað færið.
Englendingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin að nýju en tilraunir þeirra báru afskaplega lítinn árangur og sanngjarn sigur Króata.
Króatar eru komnir í úrslitaleikinn í fyrsta skipti í þeirra sögu. Englendingar þurfa hins vegar að bíða í að minnsta kosti fjögur ár í viðbót eftir öðrum heimsmeistaratitli.