Innlent

Guðni Bergsson vill byggja upp Laugardalsvöll: „Erum að fá þetta til baka á margfaldan hátt“

Bergþór Másson skrifar
Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. KSÍ
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, var gestur í Sprengisandi á Bylgjunni fyrir viku síðan. Í þættinum segir Guðni það mjög mikilvægt fyrir grasrótarstarfsemi KSÍ sem og íslenskt samfélag í heild sinni að Laugardalsvöllurinn sé byggður upp. Einnig lýsir hann því yfir að hann vilji að ríkisvaldið leggi meiri pening í framkvæmdir á vellinum.

Guðni segir það nauðsynlegt að gera breytingar á vellinum svo hann standist nútímakröfur. Hann greinir frá því að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar til tómstunda og íþrótta næstu fimm ár séu 30 milljarðar og bætir við að „við erum að tala um kannski 4-5 milljarða af hálfu Reykjavíkurborgar í þessa framkvæmd sem er svipað og hún myndi vera borga til 50 ára til vallarins ár eftir ár.“

Guðni hvetur einnig ríkisvaldið til þess að auka framlög sín til íþróttastarfsemi þjóðarinnar og nefnir það að athyglin sem landsliðið hefur vakið sé tugi milljarða virði.

„EM 2016 var metið upp á 20 milljarða útaf auknum ferðaáhuga erlendra ferðamanna að koma til Íslands, við eigum eftir að taka það út með HM en það er raunveruleg verðmætasköpun í þessari athygli sem landsliðið hefur vakið“ segir Guðni.

Guðni segir fjárfestingu í þjóðleikvangi eðlilega fyrir ríkisvaldið. „Þegar við erum búin að ná þessu saman með knattspyrnuna þá hlýtur handboltinn, karfan og Laugardalshöllin að vera næst á dagskrá.“

„Við getum ekki bara dást að þessu íþróttalífi, við verðum auðvitað að fjárfesta í aðstöðu, nú er komið að ríkisvaldinu að koma með sitt í þetta til að hjálpa til, við erum að fá þetta til baka á margfaldan hátt.“

Að lokum segist Guðni vera vongóður um að ríkisvaldið komi meira inn að uppbyggingu nýs Laugardalsvallar: „Ég held að þetta hafi alveg hlotið viðurkenningu og brautargengi innan ríkisstjórnarinnar þannig ég er mjög bjartsýnn að hún sé að sjá þetta sömu augum og við.“

Hér má hlusta á Guðna Bergsson í Sprengisandi á Bylgjunni.

Uppfært: Upprunalega stóð að viðtalið væri frá deginum í dag, en hið rétta er að viðtalið er vikugamalt. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×