Skoðun

Tími fyrir sögu

Hafþór Sævarsson skrifar
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur nú kosið að blanda sér opinberlega í samtal okkar Jóns Steinars Gunnlaugssonar, hæstarréttarlögmanns, varðandi það hvort sá síðarnefndi sé vanhæfur sem verjandi í endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna. Jón Steinar þorði raunar ekki að svara ásökun minni um vanhæfni öðruvísi en að láta eins og hún hafi aldrei verið borin upp – svo viðkvæmt er málefnið fyrir Jón. Þess í stað notaði hann orðið „vanbúinn,” svona eins og Jón sé bara ekki í stígvélunum þegar hann veður yfir ána. Í framhaldinu blandaði svo Davíð Oddsson sér í umræðuna eftir að maður nokkur lét í sér heyra. Maður sem gengur undir nafninu Sigurfreyr, þó hann heiti Guðmundur Jónasson síðast þegar ég vissi, kom fram með sögu um föður minn, Sævar M. Ciesielski. Þetta var saga sem enginn af þeim sem stóðu pabba næst höfðu heyrt áður. Davíð Oddsson kvittaði svo uppá þá sögu í framhaldinu. Það er hins vegar ekki á hverjum degi að Davíð Oddsson lætur í sér heyra – hvað þá að huldumenn dragi hann til þess. Það skyldi þó ekki vera að slíkt komi fyrir, þegar kóngur stendur í skák?

Jón Steinar, huldumaðurinn og Davíð Oddsson njóta nú allir þess vafasama heiðurs, að hafa baðað sig í dýrðarljóma réttlætisbaráttu föður míns. Þremenningarnir vilja allir Sævar hafa kveðið. Það er allt gott og blessað í sjálfu sér. Það gátu þeir þó ekki öðruvísi gert en með því að vanvirða minningu hans á sama tíma. Hvernig þá? Bæði huldumanninum og Davíð fannst í fínasta lagi að brjóta almenn lögmál um hvernig er talað um fundi og samtöl með hinum látna. Það er nefnilega svo að til eru einfaldar meginreglur um góða siði í þeim efnum sem allir þekkja. Það stórhlægilega við þetta er að þeir geta ekki falið vanvirðingu sína á föður mínum á sama tíma og þeir nota lífsbaráttu hans sér til framdráttar. Það er ýmislegt við sögu þeirra tvímenninga, Davíðs og huldumannsins, út á að setja, en hún fjallar um meintan peningastyrk Davíðs til föður míns. Ástæðulaust er fyrir mig að rekja það; ætli ég leyfi þeim ekki bara að eiga þessa hetjusögu núna – í bili allavega. Þetta er hins vegar ekki í fyrsta skipti sem menn leyfa sér að brjóta allar grundvallarreglur um lágmarksvirðingu þegar kemur að æru föður míns, honum Sævari heitnum.

Þann 29. júlí árið 2011 birtist óvænt kveðja frá Morgunblaðinu. „Minningargrein” um föður minn var birt á miðju opnu við hlið leiðara ritstjóra Morgunblaðsins. Greinin var birt sama dag og kistulagningin fór fram, fjórum dögum á undan útför. Það er fordæmislaust að birta minningargrein áður en menn hafa verið lagðir til hinstu hvílu, það er aldrei gert af virðingu við aðstandendur. Skrif þessi er þó ekki hægt að flokka sem minningargrein - nema að forminu til. Af efninu að dæma var þetta yfirlýsing um að ekkert framhald yrði á málunum alræmdu. Fyrir utan ósómann sem Bragi bóksali var fenginn til að skálda af hinum mesta subbuskap, var þar að finna óvænta lögfræðilega samsuðu í miðri grein. Út frá greininni er ekki annað að sjá en að Bragi þessi sé sérfróður aðili um takmarkað valdsvið hæstaréttar og skrifar hann af fullu öryggi eins og hæstarréttarlögmaður um hvenær dómstóll getur gengið gegn ,,settum” lögum og önnur lögfræðileg álitaefni. Sömuleiðis var greinarhöfundi umhugað valdsvið háttvirts dómsmálaráðherra þess tíma - Ögmundi Jónassyni - settar staðfestar og kyrfilegar skorður. Lögfræðilegi rökstuðningurinn, í kjarna greinarinnar mitt á milli níðsins í slúðurstíl, leiddi að þeirri niðurstöðu að það væri aldrei hægt að gera neitt meira í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum.

Ritstjórn Morgunblaðsins, með staðsetningu greinarinnar og fordæmalausri tímasetningu, gæti allt eins hafa skrifað undir yfirlýsinguna sjálf - sem ótækt er að túlka öðruvísi en stríðsyfirlýsingu. Lögfróði aðilinn sem fékk að spreyta sig við hægri hönd Davíðs í yfirlýsingu þessari, afhjúpast með hárfínni greiningu á textabrotinu. Aðili þessi er að öllum líkindum Jón Steinar Gunnlaugsson. Orðavalið í yfirlýsingunni gefur vísbendingar, sbr. „vanbúin” (sjaldgæft orð sem Jón Steinar notaði í grein sinni „Óvænt kveðja,” sem var birt þann 22. júlí 2018 á Vísi) og „vegna [eigin] klaufaskapar,” (sjaldgæft orðasamband sem Jón Steinar notaði í grein sinni „Aðför” sem birtist þann 7. apríl 2016 í Morgunblaðinu) ásamt hugmyndafræði sem er einkennandi fyrir Jón, sbr. „þótt ýmsum virðist dómurinn alloft huga betur að hagsmunum ríkisvalds en gagnaðilja.”  Í umboði þessarar duldu stríðsyfirlýsingar hafa svo menn eins og Brynjar Níelsson fengið að leika lausum hala og staðfastlega staðið gegn málstað föður míns. Ritstjórn Morgunblaðsins gaf tóninn. Það er lítill bragur af því að þykjast standa með réttlæti en leynt og ljóst vinna gegn því.

Ekkert af þessu skiptir hins vegar máli hvað heildarsamhengið varðar. Við tökum þess vegna ekkert mark á stríðsyfirlýsingum og fyrirgefum vorum skuldunautum. En hvort menn eru tilbúnir að staðsetja sig með heildaruppgjöri þessara mála er svo annað mál. Hvað þýðir heildaruppgjör í þessu samhengi?

Það þýðir að það er orðið tímabært að segja sögu.



Höfundur er sundlaugarvörður.





Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×